Fjölbreytt verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk
Handritsgerð fyrir sjónvarpsþætti um ást og ástarsambönd sem byggist á ástarrannsóknum, bók og heimildamynd um skyr, hlaðvarp um fornsögur, ráðavefur tengdur sálfræði, fræðslumyndband um háhyrninga og verkefni sem stuðlar að auknum skilningi á sjálfbærni eru meðal þeirra 35 verkefna á vegum vísindamanna Háskóla Íslands sem hljóta í ár styrk úr sjóði innan skólans sem ætlað er að styðja við virka þátttöku vísindamanna í samfélaginu. Metfjöldi umsókna um slíka styrki barst að þessu sinni.
Þetta er í fjórða sinn sem styrkjum sem þessum er úthlutað. Þeir eru í takt við stefnu skólans, þar sem rík áhersla er lögð á að samfélagsleg áhrif skólastarfsins, og er styrkjunum ætlað að skapa akademísku starfsfólki aukið svigrúm til samtals við samfélagið í krafti rannsókna sinna og sérþekkingar.
Að þessu sinni bárust skólanum 78 umsóknir um stuðning við samfélagsvirkni frá vísindamönnum skólans sem er metfjöldi sem fyrr segir. Þrjátíu og fimm þeirra hlutu styrk að þessu sinni, samanlagt að upphæð tæplega 45 milljónir króna.
Kynjahlutfall styrkþega er nokkuð jafnt, 57% konur og 43% karlar. Verkefni af öllum fimm fræðasviðum skólans frá styrk að þessu sinni og óhætt er að segja að þau undirstriki vel þá miklu fjölbreytni sem er í rannsóknastarfi á vegum Háskóla Íslands og ríkan vilja starfsfólks til að deila þekkingu sinni með samfélaginu.
Auk ofangreindra verkefna vísindamanna sem hljóta styrk að þessu sinni má nefna sprotafyrirtæki sem þróar lyf gegn skæðum sjúkdómum í Afríku, vefsíðu um húsnæðismál, rafrænan gagnagrunn um Vestur-Íslendinga, rýnihóp um mæðradauða á síðustu 20 árum, fræðsluefni um köngulær, bókaútgáfu tengda Alþingiskosningum og verkefni tengt fötlun á tímum faraldur.
Háskóli Íslands þakkar öllum umsækjendum fyrir framlag þeirra til verkefna á sviði samfélagsvirkni. Styrkþegum er óskað hjartanlega til hamingju með styrkinn.