Skip to main content
9. febrúar 2023

Fjölþættar aðgerðir þarf til að jafna kynjahlutfall í háskólum

Fjölþættar aðgerðir þarf til að jafna kynjahlutfall í háskólum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sveigjanlegra námskerfi í háskólum, aukin áhersla á kynjafræðimenntun hjá bæði kennaranemum og leik-, grunn- og framhaldsskólanemum, átak gegn staðalímyndum á öllum skólastigum og aukinn stuðningur við efnaminni nemendur og innflytjendur er meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu um aðgerðir til að jafna kynjahlutfall í háskólanámi. 

Skýrslan nefnist „Staðalímyndir í háskólum“. Hana vann Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fyrir samráðsvettvang jafnréttisfulltrúa háskólanna með stuðningi frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti. Skýrslan var til umræðu á lokamálþingi Jafnréttisdaga sem staðið hafa yfir í háskólum landsins í vikunni, og má finna upptöku af málþinginu á vefnum.

Markmið þessa verkefnis var að varpa ljósi á ójafnt kynjahlutfall nemenda í háskólum og hvort kynbundnar staðalímyndir hafi þar áhrif. Jafnframt var ætlunin að leggja fram tillögur að aðgerðum til að jafna kynjahlutfallið en þar var bæði horft til þess sem þegar hefði verið gert hér á landi og aðgerða erlendis sem gefið hafa góða raun.

Bent er á í skýrslunnni að strax á framhaldsskólastigi séu áherslur karla og kvenna í námsvali ólíkar sem fylgir þeim inn í háskólanámið og þrátt fyrir ýmsar aðgerðir og lagabreytingar virðist staðalímyndir um nám og störf enn stuðla að kynbundnu náms- og starfsvali. „Þá sýna niðurstöðurnar að brotthvarf úr námi er meira meðal karla en kvenna, bæði í framhalds- og háskólum og fleiri konur brautskrást af báðum skólastigunum,“ segir m.a. í skýrslunni.

Skýrsluna vann Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fyrir samráðsvettvang jafnréttisfulltrúa háskólanna með stuðningi frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti. Skýrslan var til umræðu á lokamálþingi Jafnréttisdaga sem fram fór í dag og hér Laufey í pontu í Hátíðasal HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson

Undirstrikað er að mikilvægt sé að draga bæði úr brottfallinu og vinna gegn hugmyndum um kynhlutverk og kynbundnar staðalímyndir um nám og störf. Því eru lagðar til ýmsar tillögur sem snerta bæði háskólastarf, önnur skólastig og samfélagið allt og taka mið af breyttri samfélagsmynd. „Öflugar aðgerðir og úrbætur í skólasamfélaginu með stuðningi stjórnvalda geta unnið gegn félagslegum hindrunum, stuðlað að auknu menntunarstigi í landinu og skapað tækifæri fyrir alla í samfélaginu,“ segir einnig í skýrslunni.

Meðal tillagna sem finna má í skýrslunni er að:

  • Tryggja að kennaranemar og starfsfólk innan menntakerfisins fái menntun í kynjafræði og að greinin verði hluti af menntun leik-, grunn- og framhaldsskólanema. 
  • Háskólarnir vinni ásamt skólasamfélaginu öllu, stjórnvöldum og sveitarfélögum gegn kynbundnum staðalímyndum á öllum sviðum. Vísað er til tilraunaverkefna að breskri fyrirmynd sem nefnast Gender Respect og GECM, sem reyndust árangursrík og geta nýst sem fyrirmynd að aðgerðum hér. 
  • Vinna sérstaklega gegn kynbundnum staðalímyndum í hjúkrunarfræðinámi, leikskólakennaranámi og STEM-greinum (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) m.a. með öflugu kynningarstarfi og rannsóknum á reynslu kvenna og karla af námi á þessum sviðum.
  • Háskólar skoði möguleika á sveigjanlegra námskerfi sem opni leiðir fyrir breiðari hóp fólks að háskólanámi.
  • Ná til nemenda úr efnaminni og innflytjendafjölskyldum með stuðningi og samstarfi milli skólastiga og stuðla þannig að jafnari tækifærum til menntunar.
  • Auka aðgengi að grunnnámi í tungumálum fyrir fólk sem af ýmsum ástæðum getur ekki tekið þátt í hefðbundnum kennsluformum á íslensku.
  • Auka aðgengi fyrir flóttafólk og hælisleitendur að háskólanámi. 
  • Háskólarnir bæti skráningu og miðlun um upplýsinga um nemendur með erlendan bakgrunn til að hægt sé að fylgjast betur með stöðu þessa hóps.

Skýrsluna í heild má nálgast á vef HÍ

""