Skip to main content
23. apríl 2025

Fjöruferð með HÍ og FÍ í Gróttu á sunnudag

Fjöruferð með HÍ og FÍ í Gróttu á sunnudag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viltu koma í fjöruferð með Háskóla Íslands og Ferðafélagi Íslands og fá fróðleik í fararnesti? Þá er tækifærið á sunnudaginn kemur, þann 27. apríl kl. 12 við Gróttu á Seltjarnarnesi. Með í för verða líffræðinemar úr Háskóla Íslands en ferðina leiða Ólafur Patrick Ólafsson, háskólakennari og margreyndur vísindamiðlari og Jóhann Óli Hilmarsson, landsþekktur fuglavísindamaður og fuglaljósmyndari, sem hefur hlotið verðlaun fyrir störf sín í þágu náttúrverndar.

Gangan er hluti af starfi Ferðafélags barnanna og það verður sérstaklega áhugavert fyrir fjölskyldufólk að ganga um fjöruna með Jóhanni Óla sem er á meðal helstu fuglaljósmyndara landsins. Hann er auk þess höfundur bókarinnar Fuglavísir sem margir eiga. Jóhann Óli mun því leiðbeina fólki um þá fugla sem ber fyrir augu en Grótta er einmitt dásamlegur staður til að skoða fugla, ekki síst að vorlagi þegar farfuglarnir streyma til landsins.

Grótta er perla í borgarlandinu

Fjaran í Gróttu er afar skemmtileg því hún er bæði skjólsöm með breiðum sandflákum þegar fjarar út og brim hefur þar líka mikil áhrif. Þarna er því einstakt lífríki og gaman að snúa við steinum og skoða í pollana.

Reikna má með fjölda farfugla á sunnudaginn í fjörunni við Gróttu en þeir hópast nú heim. Mildari dagar undanfarið hafa einfaldað þeim flugið á varpstöðvarnar. Vaðfuglar sækjast eftir ætinu í fjörunni og líffræðinemar frá Háskóla Íslands munu benda fólki á fugla, marflær og fjölmargt annað sem leynist í fjörunni.

Gott er að mæta vel klædd í fjöruferðina og í stígvélum og með fötur eða glær ílát til að safna í hinum ýmsu lífverum og auðvitað með hollt nesti. Gangan tekur 2 klst.

Gangan er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands og undir merkjum Með fróðleik í fararnesti sem hlaut Vísindamiðlunarverðlaun Rannís fyrir tveimur árum.

Í fjöruferðinni í Gróttu er sum sé ætlunin að skoða ýmsar lífverur fjörunnar, grúska og leita að kröbbum og öðrum smádýrum en líka að skoða plönturnar. Þetta er nánast síðasta tækifæri þessa vors að fara út í Gróttu því henni er lokað fyrir allri umferð á varptímanum, frá 1. maí til 15. júlí.

Mæta vel klædd og í stígvélum

Gott er að mæta vel klædd í fjöruferðina og í stígvélum og með fötur eða glær ílát til að safna í hinum ýmsu lífverum og auðvitað með hollt nesti. Gangan tekur 2 klst.

Gangan er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands og undir merkjum Með fróðleik í fararnesti sem hlaut Vísindamiðlunarverðlaun Rannís fyrir tveimur árum.

Þúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa notið þess að halda í göngur í þessari vísindaröð undanfarin fjórtán ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum og sérfræðingum HÍ við nánast hvert fótmál.

Þátttaka er ókeypis í fjöruferðinni og öll velkomin. Ekkert að panta, bara mæta!

Mæting er kl. 12 á bílastæðið við Gróttuvita.