Skip to main content
14. október 2022

Forsetar Finnlands og Íslands fjalla um samvinnu á átakatímum

Forsetar Finnlands og Íslands fjalla um samvinnu á átakatímum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fjalla um norræna samvinnu á átakatímum í Veröld - húsi Vigdísar 19. október næstkomandi kl. 14:15-15:45. Að loknum þeirra erindum taka ráðherrar í ríkisstjórnum Íslands og Finnlands og fræðimenn við Háskóla Íslands þátt í pallborðsumræðum.

Innrás Rússlands í Úkraínu er árás á grundvöll alþjóðasamfélagsins og þess skipulags sem byggir á sameiginlegum reglum. Hún er brot á alþjóðalögum, gengur gegn friðhelgi landamæra og virðir mannréttindi að vettugi. Að baki árásarstríði Rússlands er óvirðing við frjálslynd lýðræðissjónarmið, marghliða samvinnu og endurspeglar um leið tilhneigingar til ógnarstjórnar sem einnig gætir víðar í heiminum. Vestræn lýðræðisríki – í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar – hafa brugðist við af festu og eins og önnur Evrópuríki hafa Norðurlönd sameinast um stuðning við Úkraínu. Finnland og Svíþjóð hafa sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu. En það eru erfiðir tímar framundan og stríðið veldur kreppu á mörgum sviðum sem mun hafa ólík áhrif á Evrópulönd. Þau munu áfram þurfa að vera úrræðagóð og staðföst.

Um þetta verður fjallað á fundinum í Veröld og þær spurningar sem nú vakna í tengslum við norrænt samstarf, þar á meðal hvert hlutverk norrænnar samvinnu í þessu ástandi sé, hvaða áhrif væntanleg aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO hafi á svæðisbundna samvinnu, hvort færa þurfi loftslagsmál aftar í forgangsröðina, hvernig Norðurlöndin geti haldið áfram að styðja Úkraínu og hvernig þeim beri að haga tengslum sínum við Rússland þegar fram líða stundir? 

Dagskrá:

  • Sauli Niinistö, forseti Finnlands.
  • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Fundarstjóri: Auðunn Atlason, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum. 

Pallborðsumræður:

  • Thomas Blomqvist, ráðherra norrænnar samvinnu og jafnréttis í finnsku ríkisstjórninni. 
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra norrænnar samvinnu og félags- og vinnumarkaðsmála.   
  • Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. 
  • Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósent við Háskóla Íslands. 

Umræðustjóri: Pia Hanson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fjalla um norræna samvinnu á átakatímum í Veröld 19. október næstkomandi.