Fræðsla og fjör á Nýnemadögum HÍ
Fjölbreytt og skemmtileg fræðsla og kynning á þjónustu Háskóla Íslands, gönguferðir um háskólasvæðið, tónleikar á Háskólatorgi og hið árlega nýnemamót Stúdentaráðs HÍ í fótbolta er meðal þess sem í boði verður á árlegum Nýnemadögum sem fara fram 4.-8. september.
Um 3.400 manns eru að hefja grunnnám við Háskóla Íslands nú í haust og til viðbótar eru nærri 2.400 nýnemar í framhaldsnámi. Því er stór hópur að feta sín fyrstu skref í háskólasamfélaginu. Honum stendur til boða ótal tækifæri og öflugur stuðningur en markmiðið með Nýnemadögum er einmitt að opna augu nýnema fyrir því.
Dagskrá Nýnemadaga fer að mestu fram á Háskólatorgi og hefst með kynningu á ýmiss konar þjónustu fyir háskólanema mánudaginn 4. september kl. 11.30 – 13.00. Þar geta nemendur spjallað við fulltrúa frá ótal deildum og stoðsviðum skólans og samstarfsaðilum, Stúdentaráði og Félagsstofnun stúdenta auk þess sem færi gefst á að kaupa ýmiss konar háskólavarning á pop-up bás Bóksölu stúdenta.
Þennan dag verður einnig boðið upp á gönguferð um háskólasvæðið undir forystu stúdenta en hún hefst kl. 12 á Háskólatorgi. Alla vikuna verða fulltrúar Stúdentaráðs jafnframt á upplýsingaborðinu á Háskólatorgi milli kl. 10 og 14 og eru reiðubúin að svara spurningum jafnt nám og félagslíf.
Þriðjudaginn 5. september kl. 12 treður tónlistarkona Katrín Myrra upp á Háskólatorgi og hitar þannig upp fyrir Októberfest Stúdentaráðs sem fer einmitt fram í vikunni.
Miðvikudagurinn 6. september er helgaður umhverfismálum. Þar geta stúdentar kynnt sér hvernig þeir geta lagt sitt að mörkum til grænni háskóla auk þess sem grænfáninn verður dreginn að húni við Aðalbyggingu og tré gróðursett á háskólasvæðinu. Rafhlaupahjólaleigan Hopp verður með sérstakt tilboð fyrir nemendur Háskóla Íslands þennan dag, Háma býður upp á vegan mat og Bóksala stúdenta verður með skiptifatamarkað. Háskólakórinn mun enn fremur troða upp á Háskólatorgi á þessum degi og um leið kynna blómlegt starf sitt.
Fimmtudaginn 7. september er komið að árlegu nýnemamóti Stúdentaráðs í fótbolta en það fer fram í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu og hefst kl. 12.30. Þar etja nemendafélög kappi hvert við annað í sjö manna liðum og hljóta sigurvegarar fótboltamótsins farandbikar ásamt öðrum veglegum vinningum.
Þessu til viðbótar mun Nemendaráðgjöf HÍ kynna víðtæka þjónustu sína með stuttum fræðsluviðuburði í vikunni og sama má segja um Alþjóðasvið sem kynnir möguleika á skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi erlendis.
Spurningaleikur fyrir nýnema verður í Uglunni á Nýnemadögum og geta heppnir þátttakendur unnið glæsilega vinninga.
Auk þess hvetjum við stúdenta til þess að fylgjast með Instagram-reikningi Háskólans í Nýnemavikunni en hann verður einnig helgaður félagslífi og þjónustu og stuðningi við stúdenta. Þá er tilvalið skrá sig á Facebook-síðu fyrir nýnema Háskólans sem er opin öllum sem eru að hefja nám við skólann.
Nánari upplýsingar um Nýnemadaga má finna á vef HÍ.