Skip to main content
22. nóvember 2024

Framtíðin í máltækni og menntun

Framtíðin í máltækni og menntun  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðilar vítt og breitt úr máltækniheiminum komu saman og fögnuðu þeirri þróun sem á sér stað á sviði máltækni á íslensku á máltækni þing Almannaróms „Það virkar“ mánudaginn 11. nóvember í Grósku, en það markaði jafnframt upphaf viku islenskunnar. Málþingið snerist um mikilvægi máltækniáætlunar Íslands 2024-2026 sem miðar að því að tryggja framtíð tungumálsins í stafrænu umhverfi og salurinn var einróma um að halda þurfi vel á spöðunum og tryggja góða samvinnu.

Menntavísindasvið HÍ tekur virkan þátt í umræðunni um hvernig máltækni nýtist í þágu menntunar og málstofan „Menntun og máltækni mætast“ var hluti af máltækniþinginu. Málstofan var skipulögð af HIM – Hugveitu um inngildandi menntatækni í samstarfi við Almannaróm, Nýsköpunarstofu menntunar hjá Menntavísindasviði HÍ og Reykjavíkurborg. Hugveita um inngildandi menntatækni varð til fyrr á árinu með það að leiðarljósi að skapa vettvang fyrir þverfaglegar umræður um tækniþróun sem nýtist í þágu inngildingastarfs í skólum. Málstofan var því hluti af röð viðburða sem hugveitan stendur fyrir til þess að varpa ljósi á fjölbreytta flóru rannsókna, nýsköpunarstarfs og vöruþróunar á þessu sviði.  

Ásta Olga Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Nýsköpunarstofu menntunar á Menntavísindasviði, leiðir Hugveitu um inngildandi menntatækni. „Eins og öll tækniþróun snýst stóra máltækni verkefnið ekki síður um það hvernig og hvenær máltæknin er nýtt, hún er mátuð við raunverulegar þarfir samfélagsins og áhrif hennar á menninguna er skoðuð. Í máltækniáætluninni er lögð rík áhersla á notkun máltækni í menntakerfinu og hvernig styrkja megi lausnir sem nýtast við kennslu á íslensku sem öðru máli og innleiða máltæknilausnir sem geta stutt við menntakerfið á fjölbreyttan hátt. Það þarf allskonar lausnir fyrir allskonar notendur, það er engin ein töfralausn sem mun leysa allar áskoranir sem tengjast læsi eða inngildingu í samfélaginu,“ segir Ásta Olga. 

Dagskráin spannaði vítt svið þar sem kynnt voru ólík verkefni sem tengjast máltækni, menntatækni, hönnunarhugsun, stefnumótun og rannsóknum á sviði læsis, fjöltyngis og inngildingar í skólastarfi. Gestir fengu innsýn í fjölbreytt verkefni:

  • „Íslenskur námsorðaforði í rafrænar orðabækur“ - Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, kynnti hvernig rafrænar orðabækur geta nýst í menntastarfi. 
  • „Rúv.orð og fleiri verkefni tengd MEMM“ - Donata Honkowicz Bukowska frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu fjallaði um þróunarverkefni sem styðja fjöltyngdar fjölskyldur við íslenskunám. 
  • „Íslensk menntatæknifyrirtæki“- Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir frá Samtökum iðnaðarins ræddi lausnir og áhrif menntatæknifyrirtækja á inngildingu. 
  • „Lestur gegnum hlustun“ - Anna Nikulásdóttir, framkvæmdastjóri Grammateks ehf., kynnti námsefni með talgervilslestri sem ný leið til að styðja læsi. 

Málstofustjóri var Hjörtur Ágústsson, deildarstjóri hjá NýMið – Nýsköpunarmiðju menntamála, og stýrði hann líflegum umræðum milli fyrirlesara og gesta. Viðburðurinn var fyrst og fremst vettvangur fyrir kynningu nýjustu verkefna í máltækni en einnig  skapaði hann einnig tækifæri til tengslamyndunar og umræðu um hvernig máltækni og stafrænar lausnir geta haft jákvæð áhrif á menntun. Með aðkomu sérfræðinga og nýsköpunaraðila var lögð áhersla á að tengja fræðasamfélagið, skóla og atvinnulíf til að skapa raunhæfar lausnir sem nýtast nærsamfélögum og skólasamfélaginu til framtíðar. 

Sjá hér Áætlun um íslenska máltækni 2.0 og Þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026 

Fleiri verkefni má sjá á vef Almannaróms 

Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, kynnti hvernig rafrænar orðabækur geta nýst í menntastarfi.