Framúrskarandi kennarar og geggjað te
Lárus Jón Björnsson (ávallt kallaður Lalli) er giftur faðir þriggja orkumikilla drengja og starfar sem sjúkraþjálfari hjá Táp sjúkraþjálfun. Hann er að ljúka námi í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun HÍ og segir námið hafa komið skemmtilega á óvart á margan hátt, sérstaklega varðandi falleg tengsl við samnemendur annars vegar og dýpri skilning í samskiptum við fjölskylduna sína hins vegar.
Lalli heyrði fyrst af jákvæðri sálfræði í gegnum vinkonu sína sem lauk náminu í fyrra og er félagsráðgjafi. Þá bjó hann á Patreksfirði og vinkona hans sótti námslotur í Reykjavík. „Ég spurði hana um þetta allt og fannst það svo svakalega spennandi og mér fannst ég tengja við svo margt. Ég sótti því um.“
Hann flutti með fjölskylduna til Reykjavíkur í lok síðastliðins sumars og var þá og þegar byrjaður að þróa vinnu sína varðandi sérhæfingu í neðanbeltis karlaheilsu. „Þau vandamál geta verið flókin og ég trúi mikið á heildstæða nálgun þegar kemur að mínum skjólstæðingum; körlum sem hafa fengið krabbamein eða sjaldgæfa kvilla á þessu svæði eða þrálát einkenni vegna einhvers þar. Þeir hafa ekki endilega fengið nógu góða nálgun frá öðru heilbrigðisstarfsfólki því það vantar oft aðeins upp á þekkinguna til þess. Þeir eru því margir hverjir týndir. Mörg vandamálanna eru þess eðlis að það tekst ekki að lækna alveg og hluti af því sem við sjúkraþjálfarar gerum er að minnka verkina en einnig hjálpa fólki að líða betur þrátt fyrir einkenni.“
Fékk styrk úr Lýðheilsusjóði
Lalli byrjaði að vekja athygli á þessu brýna málefni á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram árið 2019 undir heitinu Neðanbeltis karlaheilsa. „Þá lagði ég mikla áherslu að hafa húmor í forgrunni sem lykilverkfærið til að ná til fólks. Núna er ég með aðeins fleiri pælingar eftir að ég fékk styrk úr Lýðheilsusjóði til að hanna heimasíðu. Því langar mig að bjóða upp á meiri fræðslu með vinklum úr jákvæðu sálfræðinni og heildstæðari nálgun.“
Hann segir það gerast reglulega að hann sé spurður að af skjólstæðingum hvort þeir séu einir að glíma við sín vandamál. „Ef þeir eru með einhver einkenni og tala ekkert um þau, þá hefur það bein áhrif á líðan, lífsgæði og hamingju. Í stað þess að hugsa nálgunina einungis út frá vöðvum eða taugum í sjúkraþjálfun þá er sterkt að geta líka kynnt fyrir þeim leiðir til að auka vellíðan. Ég held að margir sjúkraþjálfarar séu farnir að gera það en við getum alltaf gert betur.“
„Ég hef farið í gegnum framhaldsskólanám og háskólanám og tekið ýmis námskeið um ævina. Kennarar eru mismunandi. Meirihluti kennara í jákvæðri sálfræði eru sjúklega færar konur og allt kennarateymið er framúrskarandi,“ segir Lalli. MYND/Olga Björt
Hugtakið jákvæð heilsa
Ein skilgreining á jákvæðri heilsu, sem fengin er úr náminu, segir Lalli vera getuna til að stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu. „Ég veit núna að ég get notað aðferðir sem ég hef lært í náminu til þess að auðvelda mér að ná til þessara karla og mögulega hjálpa þeim.“ Lalli tekur dæmi um einn skjólstæðinga sinna sem var á Reykjalundi sem sagði honum að það fyrsta sem læknirinn þar sagði við hópinn var: „Við erum ekki hér til að lækna verkina ykkar heldur að kenna ykkur að lifa með þeim.“
Aðspurður um hvað honum finnst standa upp úr í náminu í vetur, segir Lalli það annars vegar vera tengslamyndunina í samnemendahópnum og hins vegar hversu mikið hann gat notað aðferðirnar fyrir sitt persónulega líf.
Nánd, nærgætni og samkennd
„Mér þykir ofboðslega vænt um fólk þarna og langar að halda sambandi við það eftir námið. Æfingarnar í lotunum voru stórkostlegar og mikil nánd, nærgætni og samkennd. Svo á ég þrjá gaura og hef verið í löngu sambandi og það hefur breyst hvernig ég les í fjölskyldu mína, bæði konuna og synina, varðandi líðan, hugsun og hegðun. Ég hafði aldrei gert núvitundaræfingar og við fengum heilt námskeið um núvitund með samkennd.“
Lalli vill að endingu koma því á framfæri að í lok hverrar lotu hafi hann ávallt haft að orði við konuna sína, Katrínu, hversu klárir honum fannst allir kennararnir í náminu vera í þeirra viðfangsefnum. „Ég hef farið í gegnum framhaldsskólanám og háskólanám og tekið ýmis námskeið um ævina. Kennarar eru mismunandi. Meirihluti kennara í jákvæðri sálfræði eru sjúklega færar konur og allt kennarateymið er framúrskarandi. Námið er mjög yfirgripsmikið en tíminn leið samt svo svo hratt. Maður finnur ákveðna nánd við aðra hópa í húsnæði Endurmenntunar og þar er mikið líf og fjör. Best var þó allt geggjaða teið sem var í boði! Ég fór allt í einu að drekka te - tvo bolla á dag!“
Allar nánari upplýsingar um nám í jákvæðri sálfræði er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 15. maí næstkomandi.