Friðarferlar og friðarumleitanir á Imagine Forum – beint streymi
Friðarferlar og friðarumleitanir verða í brennidepli á árlegri friðarráðstefnu Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands á mánudaginn 10. október í Veröld - húsi Vigdísar. Ráðstefnan er send út í beinu streymi.
Hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir þegar kemur að friðaruppbyggingu í breyttu öryggisumhverfi? Hvað hafa fyrri átök og friðarferlar kennt okkur? Og hvernig getum við stuðlað að skilvirkari friðarferlum og friðaruppbyggingu þar sem allar raddir fá að heyrast? Líkt og undanfarin ár ræða valinkunnir sérfræðingar í friðarmálum hvernig við getum endurhugsað friðarferla með það að markmiðið að stuðla að varanlegum friði.
Opnunarávörp flytja Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og meðal fyrirlesara á ráðstefnunni í ár eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Thania Paffenholz, forstöðumaður Inclusive Peace, Ketevan Tsikhelashvili, sendiherra og fastafulltrúi Georgíu hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Jayathma Wickramanayake, sendifulltrúi ungmenna hjá Sameinuðu þjóðunum, Hiba Qasas, forstöðumaður Principles for Peace Initiative hjá Interpeace, Louise Olsson, rannsóknastjóri hjá Peace Research Institute Oslo (PRIO), Jannie Lilja, forstöðumaður rannsókna á sviði friðar og þróunarsamvinnu hjá SIPRI, Kirsi Joenpolvi, sérfræðingur hjá friðaruppbyggingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, Marsha Henry, dósent í kynjafræði við London School of Economics, Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði og rússnesku við Háskóla Íslands, Rodrigo Mezú, fræðimaður við Air Force Academy í Kólumbíu, Niusha Khanmohammadi, sérfræðingur í friðar- og menningarmálum og listamaður, og Julie Arnfred Bojesen, forstöðumaður The Ukrainian-Danish Youth House.
Ráðstefnustjóri er Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.