Frítt fyrir ungmenni á námskeið með hverri skráningu
„Náttúran verður alltaf miklu áhugaverðari og fallegri þegar maður veit eitthvað um hana. Það á sannarlega við um helminginn af náttúrunni í kringum okkuri sem alltof fá veita athygli: Næturhiminninn,“ segir Sævar Helgi Bragason, Stjörnu-Sævar, sem kennir námskeiðið Stjörnufræði og stjörnuskoðun hjá Endurmenntun HÍ á komandi vormisseri. Ungmenni á aldrinum 12-18 ára frá frítt sæti með hverri skráningu.
Sævar byrjaði að kenna stjörnufræði þegar hann var sjálfur í framhaldsskóla og hefur kennt hana í nokkrum framhaldsskólum í mörg ár og haldið fyrirlestra og námskeið fyrir bæði kennara og nemendur á öllum skólastigum. „Ég hef því næstum því stjarnfræðilega langa reynslu af því að kenna þetta ótrúlega skemmtilega viðfangsefni!“ segir Sævar.
Sævar telur reyndar að þessi áhugi á himninum blundi í okkur flestum, ef ekki öllum. „Af náttúrunnar hendi erum við forvitin um það sem leynist fyrir ofan okkur og okkur finnst fallegt þegar himinninn setur á svið sýningu, hvort sem það er litadýrð skýja við sólsetur eða sólarupprás, stefnumót reikistjörnu og tungls eða bara norðurljósin og vetrarbrautin. Stjörnufræði vekur alltaf hrifningu hjá þeim sem fá tækifæri til að læra hvað hún er heillandi.“
Sameiginlegt áhugamál kynslóða
Það skemmtilega við stjörnuskoðun er að hún getur verið n.k. fjölskyldusport því fólk á öllum aldri hefur áhuga á henni. Þess vegna vill Endurmenntun HÍ bjóða frítt sæti fyrir ungmenni á aldrinum 12-18 ára með hverri skráningu. „Stjörnufræði getur nefnilega verið alveg yndislegt sameiginlegt áhugamál barna og fullorðinna. Enda sjáum við öll sama himinn og sama alheim. Það er hrikalega skemmtilegt að geta farið saman út með sjónauka eða bara horfa upp með berum augum og vita aðeins meira um það sem leynist þarna uppi. Eða þegar maður situr í notalegum heitum potti í sumarbústað þar sem engin ljós trufla.“
Hvað lærir fólk svo á svona námskeiði? „Svo margt spennandi og forvitnilegt. Til dæmis að þau eru búin til úr leifum dáinna stjarna, að þú ert búin til úr sömu efnum og Jörðin og að allt mun enda með ósköpum. Þá ætlum við auðvita að spá í geimverum, þ.e.a.s. öðrum geimverum en okkur sjálfum. Að ekki sé minnst á tækifæri til að fara út og skoða stjörnurnar með bestu sjónaukum sem til eru á Íslandi. Það er geggjað!“ segir Sævar að endingu, með stjörnur í augum.