Fulltrúar Menntavísindasviðs sóttu norræna ráðstefnu um kennaramenntun í Osló

Ráðstefnan Efling kennara til framtíðar (n. En styrket lærerprofesjon for fremtiden) var haldin mánudaginn 7. apríl í Osló og fjallaði um tækifæri og áskoranir sem tengjast kennaramenntun og starfsþróun kennara á tímum umfangsmikilla samfélagslegra breytinga. Norska landsráðið um kennaramenntun og starfsþróun (n. Nasjonalt forum for lærerutdanning og profesjonsutvikling) stóð að ráðstefnunni, en í því ráði sitja fulltrúar kennarasamtaka, háskóla sem mennta kennara og aðrir hagaðilar á sviði kennaramenntunar.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók þátt í pallborði ásamt öðrum fulltrúum Norðurlanda um helstu tækifæri og áskoranir tengdar þróun kennaramenntun. „Það er vaxandi kennaraskortur á Íslandi líkt og í löndunum allt í kringum okkur. Því skiptir gríðarlega miklu máli að læra af þeim aðgerðum sem aðrar þjóðir hafa gripið til og hafa skilað árangri. Hér á landi stóð yfir heildstætt átak árin 2019 til 2024 sem skilaði verulegum árangri og þá hafa kennarar nýlega samið um verulegar kjarabætur. En björninn er ekki unninn. Leikskólakennarar eru eingöngu um fimmtungur þeirra sem starfa í leikskólum og í grunnskóla þá hefur leiðbeinendum fjölgað verulega og telja nú um 20% þeirra sem starfa við kennslu,“ segir Kolbrún.
Ég vona að okkur beri gæfa hér á landi til að halda áfram að fjárfesta í menntakerfinu og treysta mannauðinn sem þar starfar.
Berglind Axelsdóttir, verkefnastjóri læsis og lestrarkennslu, og Unnur Björk Arnfjörð, verkefnastjóri starfsþróunar, sóttu einnig ráðstefnuna, en þær starfa báðar á NýMennt á Menntavísindasviði. Markmið ferðarinnar var að fá innsýn í helstu leiðir sem Norðmenn hafa farið til að styðja við kennara og efla menntakerfið og gafst dýrmætt tækifæri til að ræða við norræna kollega. „Það var áhugavert að hitta fræðimann sem starfar hjá norskri stofnun sem heldur utan um rannsóknir og þróun á ritun og lestri á öllum skólastigum,“ sagði Berglind, en hún starfar einnig sem verkefnastjóri hjá Rannsóknarsetri um læsi, þroska og líðan við Háskóla Íslands. „Norska rannsóknarsetrið fær umtalsvert fjármagn frá norskum stjórnvöldum og veitir skólum um allan Noreg ráðgjöf og stendur fyrir útgáfu og viðburðum. Þetta getum við sannarlega tekið okkur til fyrirmyndar, því það þarf að stórefla fræðslu og ráðgjöf um skólastarf og kennsluhætti hér á Íslandi og ekki síður samvinnu milli fræðafólks og fagfólks“.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var João Costa, forstjóri Evrópumiðstöðvar um sérkennslu og skóla án aðgreiningar (e. The European Agency for Special Needs and Inclusive Education), og bar erindið hans heitið „Education 2040 – Teaching compass“. Hann fjallaði um mikilvægi þess að hlúð væri að virkri þátttöku og atbeina kennara, velferð þeirra og tækifærum til starfsþróunar. Costa benti á að til að innleiða skóla án aðgreiningar á árangursríkan verði viðamikið samráðsferli að eiga sér stað þar sem allir hagsmunaaðilar komi að borðinu. Eingöngu þannig sé hægt að móta og innleiða heildstæða stefnu þar sem horft væri á alla þætti kerfisins. Hann ítrekaði einnig að mikilvægt væri að í skólum og innan menntakerfisins starfi fjölbreyttur hópur fagfólks og sérfræðinga auk kennara. „Ég tek svo sannarlega undir þetta“, segir Unnur Björk. „Mín reynsla sem kennari og skólastjórnandi er einmitt sú að allt of víða er pottur brotinn þegar kemur að aðgengi að sérfræðiþekkingu og markvissum stuðningi þegar þörf er á. Ég vil nefna sem dæmi mikilvægi þess að í grunnskólum starfi tómstundafræðingar, en ég er sjálf bæði menntaður kennari og tómstundafræðingur. Tómstunda- og félagsmálafræðingar hafa hlotið menntun og þjálfun í að vinna með samskipti, félagsfærni og tengslamyndun og þetta eru einmitt núna alveg gríðarlega mikilvæg viðfangsefni í skóla- og frístundastarfi.“
Kolbrún sagði að lokum frá frábæru erindi sem fræðikonan Sölvi Mausethangen, lektor við OsloMet-háskólann, hélt um fagmennsku kennara og gildi þess að fræða- og fagfólk vinni saman að samsköpun þekkingar á sviði menntunar og skólastarfs. Sölvi ítrekaði að slíkt samstarf þurfi að byggja á emperískri reynslu, krítískri nálgun og taka mið af faglegri þekkingu kennara, ekki eingöngu vísindalegum kenningum. „Það er algert lykilatriði að valdefla kennara sem gegna einu mikilvægasta starfi samfélagsins, að mennta og styðja við börnin okkar og ungmennin til þroska og náms“, segir Kolbrún. „Ég vona að okkur beri gæfa hér á landi til að halda áfram að fjárfesta í menntakerfinu og treysta mannauðinn sem þar starfar. Menntun kennara þarf að sjálfsögðu að þróast og breytast í takt við veruleika skólastarfs, og við sem störfum innan háskólanna verðum sífellt að leggja okkur fram við að vera í þéttu samstarfi við kennara og fagvettvang.“ Eitt af því sem Kolbrún telur brýnt er að það takist að stilla saman strengi háskóla, stjórnvalda, Kennarasambandsins og annarra hagaðila varðandi fjölgun kennara, starfsþróun og stuðning við nýliða í kennslu. Hún kallar eftir því að ný ríkisstjórn setji saman starfshóp til að móta stefnu til næstu ára um aðgerðir til að fjölga og styðja við kennara allra skólastiga hér á landi.