Fyrsta rannsóknin á neysludrifnu kolefnisspori Íslands
Neysludrifið kolefnisspor íslenskra heimila er áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins þrátt fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum. Um 71% útblásturs heimila kemur til vegna innfluttra vara og er útblástursbyrðin að mestu í þróunarríkjum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Jukka Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og samstarfsfólk hafa unnið en þetta er í fyrsta sinn sem neysludrifið kolefnisspor Íslands er kannað.
Vaxandi hlutfall vara er framleitt annars staðar en þær eru nýttar. Þar sem meirihluti umhverfisálags framleiðsluvara verður til við framleiðslu valda innflutningsþjóðir umhverfisálagi einnig utan sinna landamæra. Það má því segja að mikið af umhverfisálagi í þróunarlöndum sé útvistun á mengun frá auðugri löndum. Þrátt fyrir það snúast alþjóðlegir samningar um umhverfislega sjálfbærni, þar á meðal Kyoto-samningurinn, aðeins um að minnka mengun og útblástur innan landamæra hverrar þjóðar.
Fáar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna umhverfisálag einstakra ríkja utan landamæra þeirra og við því vildu Jukka Heinonen og samstarfsfólk bregðast. Auk hans standa þau Juudit Ottelin, sem lauk sameiginlegri doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og Aalto-háskóla í Finnlandi í fyrra, og Jack Clarke, sem lauk meistaraprófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands í vor, að rannsókninni.
Niðurstöðurnar birtu þau í vísindaritinu Journal of Cleaner Production nýverið. Þar benda þau á að mikil áhersla hafi undanfarin ár verið lögð á lágmörkun kolefnisútblásturs vegna raforkuframleiðslu. Rannsóknir sýni hins vegar slíkt sjónarhorn sé of þröngt til að vera líklegt til raunverulegs árangurs.
Í rannsókninni er dæmi tekið af Íslandi en hér á landi stafar verulegur hluti útblásturs af samgöngum og innflutningi og kemur hann oft ekki nema að litlu leyti fram í svæðisbundnum útblástursmælingum. Niðurstöðurnar sýna að þjóð getur þannig verið með mikinn útblástur miðað við höfðatölu óháð þeim orkugjöfum sem eru til staðar innanlands. Þetta leiðir til tálsýnar hjá ríkum þjóðum um að þær séu að minnka útblástur sinn á meðan hann eykst í raun hnattrænt.
Samgöngur, matur og vörur ábyrg fyrir stærstum hluta útblásturs
Sem fyrr segir er rannsóknin sú fyrsta sem gerð er á neysludrifnu kolefnisspori Íslands en 99% orku sem nýtt er til húshitunar og rafmagnsframleiðslu á landinu kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Við útreikning á kolefnisspori neyslu voru gögn um útgjöld íslenskra heimila tengd við hinn svokallaða Eora-gagnabanka um vistspor landa. Samkeyrsla þessara gagna leiddi í ljós að meðalárskolefnisspor vegna neyslu íslenskra heimila var 10.4 t koldíoxíðsígildi á mann sem er áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins – þrátt fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum. Samgöngur, matur og vörur voru þeir flokkar sem voru ábyrgir fyrir stærstum hluta útblásturs íslenskra heimila.
Þegar neysludrifið kolefnisspor fjölmargra vestrænna þjóða er borið saman kemur í ljós að það er einna stærst á Íslandi. Þá er sporið hér á landi 55% stærra en svæðisbundnar útblástursmælingar gefa til kynna, en stjórnvöld hafa miðað við slíkar mælingar í markmiðum sínum að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.
Rannsóknin sýnir einnig að um 71% útblásturs heimila var vegna innfluttra vara og samkvæmt korti af heiminum sem þremenningarnir hafa teiknað upp er
útblástursbyrðin vegna neyslu íslenskra heimila mest í þróunarríkjum.
Jukka og samstarfsfólk hans benda á að niðurstöðurnar sýni að þörf sé að víðtækari nálgun á útreikningi á útblæstri gróðurhúsalofttegunda en áður auk þess sem stefnumótun verði að taka mið af honum, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. Rannsóknin geti nýst til framtíðar fyrir velmegandi þjóðir sem vinna að lágmörkun útblásturs.