Skip to main content
27. janúar 2025

Geir og Jónína heiðruð fyrir rannsóknasamstarf í Gíneu-Bissá

Geir og Jónína heiðruð fyrir rannsóknasamstarf í Gíneu-Bissá - á vefsíðu Háskóla Íslands

Geir Gunnlaugsson, prófessor emeritus í hnattrænni heilsu, og Jónína Einarsdóttir, prófessor emerita í mannfræði, voru heiðruð fyrir rannsóknasamstarf sitt við Jean Piaget háskólann í Gíneu-Bissá á útskriftarhátíð skólans sem fram fór 27. desember 2024. Geir og Jónína hafa starfað í landinu í yfir fjóra áratugi og hafa virkjað fjölda nemenda við Háskóla Íslands til rannsókna sem tengjast m.a. heilsu barna og ungmenna í Gíneu-Bissá.

Rannsóknir Geirs og Jónínu í Gíneu-Bissá eiga sér langa sögu. Þau byggðu bæði doktorsverkefni sín á rannsóknum þar, Geir um brjóstagjöf nýfæddra barna og Jónína um viðbrögð mæðra við barnadauða. Síðastliðinn rúman áratug hafa þau unnið að rannsóknum um börn og ungmenni í samstarfi við Jean Piaget háskólann og Félagsvísindastofnun landsins (Instituto Nacional de Educação e Pesquisa — INEP), m.a. með spurningalistakönnun. Hún hefur gefið margvíslegar upplýsingar, m.a. um aðgang að menntun, notkun rafrænna miðla og neyslu áfengis og annarra vímuefna meðal ungs fólks.

Í ávarpi sínu til tæplega hundrað útskriftarnema frá mismunandi fræðasviðum lagði rektor Jean Piaget háskólans, dr. Aladje Baldé, áherslu á rannsóknarsamstarf þeirra Geirs og Jónínu við skólann, sem m.a. hefur notið stuðnings úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands og Erasmus+ styrkjaáætluninni, og önnur störf þeirra í landinu í rúmlega fjóra áratugi. Þrátt fyrir margvísleg vandamál og áskoranir sem bissá-gíneanskt samfélag hafi staðið frammi fyrir allt frá sjálfstæði 1973 hefðu Geir og Jónína ekki gefist upp. Þau hefðu haldið trúnað við landið og auk rannsókna unnið að því að efla samstarf Íslands og Gíneu-Bissá á margvíslegan hátt, til dæmis á sviði menningar og Geir sem kjörræðismaður landsins á Íslandi. Af sömu þrautseigu skyldu útskriftarnemar fást við úrlausn komandi áskorana og ögrandi verkefna sem biðu þeirra. Geir og Jónína voru að lokum sveipuð hefðbundnum vefnaði heimamanna fyrir framlag sitt.

Geir og Jonina 2

Jónína og Geir sveipuð þjóðlegum vefnaði Gíneu-Bissá í lok útskriftarathafnar.

Hafa virkjað doktors- og meistaranema til rannsókna tengdum Gíneu-Bissá

Geir og Jónína hafa ekki aðeins sinnt rannsóknum ötullega í Gíneu-Bissá heldur einnig hvatt nemendur sína til hins sama. Einn doktorsnemi í mannfræði hefur varið doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands en hún fjallaði um framkvæmd Alma Ata yfirlýsingarinnar um heilsugæslu í Gíneu-Bissá. Þá vinna þrír doktorsnemar til viðbótar að rannsóknum í landinu, einn í mannfræði og tveir í hnattrænum fræðum. Einn doktorsnemanna er mannfræðingur frá Gíneu-Bissá sem vinnur að rannsókn um kóranskóladrengi. Sú rannsókn á upphaf sitt í samstarfi við Unicef á Íslandi um meint mansal barna í landinu. Í öðru doktorsverkefninu er fengist við heilsu og líðan ungmenna, meðal annars í COVID-19 faraldrinum, með áherslu á birtingarmyndir ójöfnuðar í daglegu lífi þeirra. Þriðja doktorsrannsóknin fjallar svo um áskoranir nemenda í fimm helstu háskólum landsins og í kennaraskólanum. 

Geir og Jónína afhjúpuðu myndir af útskriftarnemendum síðastliðinn föstudag, 24. janúar, ásamt mynd af athöfninni þar sem þau voru heiðruð.

Loks má nefna að fimm íslenskir háskólanemar hafa skrifað meistararitgerðir sínar byggðar á gögnum frá landinu. Sú fyrsta fjallaði um notkun moskítóneta en á þeim tíma var Unicef á Íslandi mikilvægur stuðningsaðili við landsskrifstofuna og fjármagnaði rúmlega 400 þúsund moskítonet sem var dreift um allt landið. Aðrar meistararitgerðir hafa fjallað um kosningar, barnadauða, geðheilsu unglinga og notkun unglinga á áfengi og öðrum vímuefnum. Niðurstöður þessara rannsókna hafa verið birtar í alþjóðlegum, ritrýndum tímaritum og kynntar á ráðstefnum, innanlands og erlendis, m.a. í Gíneu-Bissá.

Sjá stutta samantekt Jónínu Einarsdóttur um rannsóknirnar í Þjóðarspegli Háskóla Íslands.

Geir og jonina

Geir og Jónína ásamt William Gomes Ferreira aðstoðarrektor og hluta útskriftarnemenda á tröppum Jean Piaget háskólans í Bissá. Mikill meirihluti útskriftarnema, eða fjórir af hverjum fimm, voru konur.

Mikill heiður

„Þetta var falleg og skemmtileg athöfn þar sem útskriftarnemar sungu og dönsuðu, hver og einn á sinn hátt, þegar þeim voru afhent skírteini sín. Svo kom það mér ánægjulega á óvart að rektorinn skildi biðja um orðið undir lok athafnarinnar til að sérstaklega heiðra mig og Jónínu, meðal annars með svipmyndum af störfum okkar í landinu allt frá 1982,“ segir Geir um viðurkenninguna.

„Það vakti athygli mína að mikill meirihluti útskriftarnemenda var stúlkur. Mér er það mikill heiður að rektorinn hafi notað störf okkar í landinu sem hvatningu til þeirra um að gefast aldrei upp þrátt fyrir margvíslegar áskoranir í landinu sem biðu þeirra,“ segir Jónína.