Gengur merkilega vel að samræma læknanám og afreksmennsku í lyftingum
Það vakti mikla athygli þegar þrjár konur röðuðu sér í efstu sætin í kjöri íþróttamanns ársins 2024 skömmu fyrir áramót en slíkt hefur aldrei gerst áður. Í hópi þessara brautryðjendakvenna var Eygló Fanndal Sturludóttir, sem keppir í ólympískum lyftingum en samhliða því stundar hún nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Eygló, sem er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og Evrópumeistari ungmenna undir 23 ára í greininni, segir að merkilega vel gangi að samræma nám og afreksmennsku í íþróttum og stefnir ótrauð á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028 og jafnvel líka í Brisbane í Ástralíu 2032.
Eygló varð í 3. sæti í kjöri íþróttamanns ársins 2024 á eftir þeim Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingakonu og Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu sem sigraði í kjörinu. Eygló var jafnframt valin lyftingakona ársins af Lyftingasambandi Íslands og Íþróttakona Reykjavíkur.
Eygló er hér ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu og Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingakonu við útnefningu íþróttamanns ársins 2024. MYND/Úr einkasafni
Þær Eygló og Sóley brutu einnig blað með því að vera fyrstu lyftingakonurnar til þess að ná svo góðum árangri í kjörinu. Lyftingagreinarnar sem þær stunda eru þó ólíkar. „Ólympískar lyftingar, sem ég stunda, skiptast í snörun og jafnhendingu. Þá er stöngin á gólfinu og maður þarf að lyfta henni yfir höfuð án nokkurrar aðstoðar. Þú þarft að nota þinn líkamsstyrk til að koma stönginni yfir höfuð,“ útskýrir Eygló.
Í kraftlyftingum er hins vegar keppt í bekkpressu, hnébeygju og réttstöðulyftu. „Þar ertu með rekka og alls kyns búnað til þess að hjálpa þér. Við sem stundum ólympískar lyftingar notum belti og hnéhlífar en engin bönd sem hægt er að vefja um stöngina. Það er heldur ekki fólk í kringum þig að „spotta“ eins og það er kallað, að grípa stöngina ef þú missir hana, eins og fólk sér í kraftlyftingum. Ólympískar lyftingar byggjast meira á liðleika og snerpu og tæknin í ólympískum lyftingum er allt öðruvísi en í kraftlyftingum,“ segir Eygló enn fremur.
Fyrsti Evrópumeistari Íslendinga í ólympískum lyftingum
En hvernig skyldi áhuginn á greininni hafa kviknað hjá Eygló. „Ég hafði lengi verið í fimleikum en meiddist og til þess að halda styrk á meðan ég var að ná mér settu þjálfararnir mig í ólympískar lyftingar. Svo náði ég mér aldrei af þessum meiðslum og fór að stunda í Crossfit. Það eru ólympískar lyftingar í þeirri íþrótt og mér fundust þær alltaf það skemmtilegasta við Crossfittið. Jólin 2020 keppti ég á Norðurlandamóti unglinga í ólympískum lyftingum og varð Norðurlandameistari og þá ákvað ég að einbeita mér bara að lyftingunum,“ segir Eygló. Óhætt er að segja að hún sjái ekki eftir þeirri ákvörðun enda hefur hún bætt sig og fjölmörg met síðan og varð til að mynda Evrópumeistari í sínum flokki árið 2022, fyrst Íslendinga.
Óhætt er að segja að þátttaka Eyglóar í ólympískum hafi fært henni margar gleðistundir. MYND/Úr einkasafni
Aðspurð hvað heilli hana við íþróttina bendir Eygló á að fyrir utanaðkomandi líti ólympískar lyftingar út fyrir að vera einhæf íþrótt þar sem fengist er við tvær tegundir af lyftum sem báðar miða að því að koma stönginni upp fyrir haus. „Þetta er samt rosalega fjölbreytt. Maður getur unnið í svo mörgum litlum smáatriðum. Maður þarf að kafa rosalega djúpt til að ná að bæta sig og hámarka kílóin sem maður getur lyft. Og svo er bara svo gaman að lyfta þungt og ná lyftu, það er ógeðslega skemmtilegt,“ segir þessi hrausti læknanemi sem varð fyrst íslenskra kvenna til að lyfta 100 kílóum upp fyrir haus árið 2022.
Eygló æfir ein en undir leiðsögn þjálfara og segir það henta sér vel „því ég er í læknisfræði og dagskráin er svolítið úti um allt, það er erfitt að hafa einhvern einn ákveðinn tíma á dag og halda sig við það. Mér finnst rosa gott að geta farið þegar það hentar mér og það er enginn að bíða.“
Æfingarnar eru hins vegar fjarri því að vera einmanalegar „Ég æfi í Crossfit Reykjavík og Lyftingafélag Reykjavíkur er undir því og þegar ég mæti á æfingu er alltaf einhver að lyfta líka þannig að maður er aldrei einn þótt maður mæti einn. Maður ekki háður neinum en þú getur spjallað og haft gaman og þetta er mjög félagsleg íþrótt af því að maður hvílir sig vel á milli lyfta. Þá er maður bara að spjalla og hafa gaman,“ segir hún.
Æfir fimm sinnum í viku samhliða krefjandi læknisnámi
Það útheimtir mikið skipulag og útsjónarsemi að vera í fremstu röð í sinni íþróttagrein og sinna um leið krefjandi námi í læknisfræði. „Ég æfi fimm sinnum í viku, þrjá og hálfan tíma í hvert sinn. Núna er ég í verknámi á fjórða ári í læknisfræði og þá er ég vanalega uppi á spítala frá kl. 8-16 og ég fer þá beint á æfingu eftir það. Eftir æfingu fer ég svo heim, fæ mér að borða og læri kannski smá og svo bara beint í háttinn,“ segir Eygló innt eftir því hvernig dæmigerður dagur líti út hjá henni.
Hún segir það hafa gengið merkilega vel að samhæfa afreksmennsku í íþróttum og nám í læknisfræði. „Ég hélt að þetta yrði meira vesen en þetta gengur vel,“ segir Eygló sem á tvö og hálft ár eftir að læknisfræðinámi sínu við Háskóla Íslands.
Eygló fagnar hér einum af fjölmörgum gullverðlaunum sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi. MYND/Úr einkasafni
Bjóst ekki við að ná svona langt í lyftingum
En hvers vegna skyldi læknisfræði hafa orðið fyrir valinu hjá henni? „Þetta er það eina sem ég hafði áhuga á og gat séð fyrir mér að vinna við,“ svarar hún að bragði.
„Ég komst inn í læknisfræðina eftir inntökuprófið í júní 2021 og nokkrum mánuðum síðar byrjaði ég að keppa á sterkum alþjóðamótum í ólympískum lyftingum. Ég vissi ekki að ég myndi ná svona langt í íþróttinni og maður hefði kannski valið eitthvað praktískara ef maður hefði vitað hvað maður myndi ná langt. En þetta reddast alltaf,“ segir læknaneminn og brosir.
Eygló er á fjórða ári í læknisfræði og heillast m.a. af bráðalækningum.
Þátttaka í erlendum mótum útheimtir töluverð ferðalög og aðspurð segir Eygló að hún mæti miklum skilningi hjá deildinni þegar kemur að námi og prófum. „Ég hef verið mjög heppinn með dagsetningar á mótum en stundum lendir þetta á slæmum tíma eins og síðasta mót sem fór fram þegar jólaprófin voru í gangi. Þá fékk ég leyfi til að taka sjúkrapróf. Ég ræði þetta við skólann og þau segja: „Ekkert mál“ sem er frábært fyrir mig, að hafa þennan sveigjanleika. Það munar öllu. Annars er þetta bara einn dagur í einu og þetta reddast alltaf allt saman, ég reyni að hugsa það þannig,“ segir Eygló sem keppir ekki aðeins á Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistaramótum í ólympískum lyftingum heldur einnig í þýsku úrvalsdeildinni (Bundesligunni) með liði sínu SV Germania Obrigheim.
Bráðalækningar heilla
Sem fyrr segir er Eygló á fjórða ári í læknisfræði og aðspurð um mögulegt framhaldsnám segir hún skurðhlutann heilla hana meira en lyflækningar. „Mér finnst bráðalækningar eða svæfinga- og gjörgæslulækningar mjög heillandi. Sömuleiðis bæklunarlækningar, sem tengjast íþróttum, það gæti líka verið mjög skemmtilegt,“ segir hún og getur bæði hugsað sér að ljúka framhaldsnámi hér heima eða annars staðar á Norðurlöndum.
Árangur seinni hluta ársins kom á óvart
En aftur að íþróttinni og glæsilegum árangri Eyglóar á liðnu ári þar sem hún varð eins og fyrr segir í þriðja sæti í kjöri á íþróttamanni ársins. Hvernig skyldi árið líta út í baksýnisspeglinum? „Fyrri part síðasta árs var allur fókus á að komast inn á Ólympíuleikana í París sem gekk því miður ekki. Ég hugsaði svolítið þá að árið væri búið, þetta var eina markmiðið, og maður væri ekki að fara gera neitt meira á því ári sem væri í frásögur færandi. En svo gekk geðveikt vel um haustið, ég varð Norðurlandameistari, Evrópumeistari ungmenna 23 ára og yngri og í fjórða sæti á heimsmeistaramóti fullorðinna. Ég sá þetta alls ekki fyrir en kannski gekk einmitt svona vel af því að maður fór bara inn á mótin og gerði sitt besta,“ segir hún.
Til þess að lesendur geri sér betur grein fyrir afrekum Eyglóar á síðasta ári má benda á að hún margbætti Íslands- og Norðurlandametin í sínum flokki og náði bestum árangri Evrópukvenna á heimsmeistaramóti fullorðinna í Barein í desember. Þar lyfti hún samtals 239 kg upp fyrir höfuð, 107kg í snörun og 132 kg í jafnhendingu. Bent hefur verið á að lyftur Eyglóar nú í haust hefðu skilað henni silfri á EM fullorðinna og 6. sæti á Ólympíuleikum í hennar flokki.
Stefnir á tvenna Ólympíuleika
Þrátt fyrir þennan frábæra árangur bjóst Eygló alls ekki við að vera jafn ofarlega á lista í kjöri á íþróttamanni ársins 2024 og raunin varð. „Árið 2023 komst ég ekki í topp tíu í íþróttamanni ársins og ég hugsaði þá að það væri gaman að komast í þann hóp á síðasta ári en að enda í einu af þremur efstu sætunum var ekki í mínum villtustu draumum. Ég var rosa hissa þegar úrslitin voru tilkynnt,“ segir hún.
Þegar talið berst að markmiðum þessa árs og í framtíðinni þá var fyrst á dagskrá hjá Eygló að keppa á einu móti með liði sínu, SV Germania Obrigheim, í þýsku Bundesligunni nú í lok janúar. „Svo er Íslandsmótið í byrjun febrúar og stærsta markmiðið á fyrri parti ársins er að ná góðum árangri á Evrópumóti fullorðinna. Ég var í fjórða sæti þar í fyrra og mig langar að gera enn þá betur núna,“ segir hún.
Eftir að hafa naumlega misst af sæti á Ólympíuleikunum í París í fyrra stefnir hún ótrauð á næstu leika. „Já, það er LA 2028 og svo er ég líka að gæla við Ólympíuleikana 2032. Það væri mjög skemmtilegt að komast tvisvar en byrjum á Ólympíuleikunum 2028,“ segir þessi fílhrausti læknanemi að lokum.