Gervigreind í háskólastarfi - Hvað má og hvað má ekki?
Háskóli Íslands hefur opnað nýja upplýsingasíðu um gervigreind með leiðbeiningum um hvernig nýta má þessa nýju tækni í skólastarfi og hvað ber að varast. Vefsíðan er fyrir bæði stúdenta og starfsfólk skólans.
Gervigreind er tækni á netinu sem getur líkt eftir mannlegri greind og hægt er að þjálfa í að læra tiltekna hluti, túlka þá og vinna að verkefnum sem yfirleitt krefjast mannlegrar hugsunar. Gervigreind hefur meðal annars verið nýtt til að afla upplýsinga á netinu, rita texta (t.d. ChatGPT) og búa til myndefni af ýmsu tagi.
Hin hraða þróun gervigreindar að undanförnu færir með sér ýmis tækifæri í starfi háskóla en einnig áskoranir sem tengjast m.a. rannsóknum, kennslu, verkefnavinnu og próftöku. Til að bregðast við þeim hefur Kennslusvið HÍ sett upp upplýsingasíðu þar sem er m.a. farið yfir það hvað má og hvað má ekki þegar gervigreind er nýtt í skólastarfi.
Vefsíðan er tvískipt út frá þörfum kennara annars vegar og nemenda hins vegar. Þar er meðal annars að finna ábendingar um hvernig kennarar geta nýtt þessa nýju tækni við þróun námskeiða, námsmat og endurgjöf og hvernig nemendur geta notað hana til að öðlast betri skilning á námsefninu og við verkefnavinnu. Á síðunni er einnig að finna viðmið og ramma sem skólinn hefur sett um notkun gervigreindar.
Vefsíðan hefur einnig að geyma svör við ýmsum spurningum sem tengjast gervigreind en hún er, eins og tæknin sjálf, í stöðugri þróun. Síðan er bæði á íslensku og ensku.