Gervigreindin getur veitt óþekkt tækifæri til að hagnýta menntun til góðra verka
„Ástæðulaust er að ætla að gervigreindin muni taka af okkur ómakið við að hugsa sjálfstætt. Ef við höldum rétt á spilunum, getur hún þvert á móti gert starf háskólafólks í senn innihaldsríkara og heilladrýgra, bæði fyrir okkur sjálf og samfélagið allt.“
Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, m.a. í ávarpi sínu í Laugardalshöll rétt í þessu en Háskólinn brautskráir í dag metfjölda kandídata. 2.832 brautskrást úr grunn- og framhaldsnámi frá öllum fræðasviðum og hefur HÍ aldrei áður brautskráð jafnmarga á einum degi. Frá stofnun Háskóla Íslands fyrir 112 árum hefur skólinn brautskráð ríflega 60 þúsund sérfræðinga sem hafa byggt hér upp blómlegt atvinnulíf og félags-, velferðar-, mennta- og menningarkerfi sem á sér fáa líka um víða veröld. Kandídatarnir sem braustskráðust í dag skipa sér í þennan glæsta hóp og munu vafalítið hafa mikil áhrif í samfélagi og atvinnulífi hérlendis og erlendis á komandi árum og áratugum.
Um fátt hefur verið meira ritað og rætt undanfarin misseri en framfarir í gervigreind og gerði háskólarektor þennan þátt í tækniþróun að meginefnivið ávarpsins í dag. Jón Atli sagði að verkefnin sem gervigreindin leysti nú þegar af hendi, hvort sem um er að ræða textaskrif, forritun eða myndvinnslu, séu slík að spurningar vakni um eðli og tilgang háskólanáms og jafnvel um framtíð sjálfs mannkyns. Háskólarektor hvatti öll þau sem brautskrást í dag til að forðast í senn oftrú á tækniframfarir og óttann við þær. „Nýtið menntun ykkar og treystið eigin dómgreind“, sagði Jón Atli í fullri Laugardalshöll.
Samvinnan er kjarni alls vísindastarfs
Jón Atli vék í erindi sínu einnig að mikilvægi háskólamenntunar og mikilvægi samstarfs innan háskóla á ólíkum sviðum. „Við þurfum ætíð að gæta þess að hlúa að liðsheildinni sem laðar það besta fram í hverju og einu okkar en gerir okkur um leið hluta af einhverju sem er stærra en summa einstaklinganna.“
Háskólar leggja enda ríka áherslu á að yfirstíga hindranir með samvinnu ólíkra fræðigreina við þróun nýrra lausna og uppgötvana. Háskólarektor sagði að æðsta stig háskólamenntunar helgist af samlegð og samvirkni sem skapi eitthvað nýtt og stórt enda sé samstarfið að sönnu kjarni alls vísindastarfs.
Jón Atli sagði framfarir á sviði gervigreindar ekki afrek eins manns heldur eigi þær sér langan aðdraganda innan háskóla, rannsóknarstofnana og tæknifyrirtækja. Að baki framförunum sé fjölbreyttur hópur vísinda- og fræðafólks sem hagnýti sér síðan allt það efni sem spunnið sé við veraldarvefinn frá degi til dags.
„Þær byggjast á þrotlausri vinnu við hönnun sífellt öflugri algóriþma sem greina og flokka upplýsingar, stórauknu reikniafli ofurtölva og síðast en ekki síst ört vaxandi gagnasöfnum sem aðgengileg eru m.a. á veraldarvefnum.“
Framfarir í sjávarútvegi aukið öryggi og arðbærari störf
Eins og gervigreindarbyltingin sýnir ótvírætt hefur tæknin mikil áhrif á líf okkar allra. Rektor HÍ sagði að tækniframfarir væru brýnar og til marks um þær væri að gagnger tæknibylting í sjávarútvegi hefði gert störfin á þeim vettvangi öruggri, skilvirkari, arðbærari og áhugaverðari.
„Þar hafa hugvit og hátækni vissulega létt okkur störfin en um leið gert okkur fært að sjá lengra og ná markverðari árangri við stóraukna og sjálfbærari nýtingu sjávarfangsins.“
Háskólarektor sagði ljóst að öll þau sem í dag halda út í samfélagið með prófgráðu frá HÍ muni án vafa nýta gervigreind í auknum mæli í lífi sínu og starfi.
„Við þurfum vitaskuld öll að vera á varðbergi gagnvart þeim mögulegu hættum sem hún hefur í för með sér. Farsæl nýting tækninnar krefst þess að við beitum fjölbreyttum aðferðum hug-, félags- og menntavísinda til að skilja og bregðast við samfélagslegum og siðferðilegum afleiðingum hennar.“
Jón Atli sagði að tíminn einn myndi leiða í ljós þær áskoranir og þá nýju möguleika sem þróun gervigreindar muni skapa.
„En við höfum fulla ástæðu til að ætla að hún muni veita áður óþekkt tækifæri til að nýta menntun til góðra verka.“