Getum öll aukið hamingjuna á einni viku
Bára Mjöll Þórðardóttir, meðeigandi og stjórnendaráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Langbrók, hefur áralanga reynslu á sviði samfélagsábyrgðar, stefnumörkunar, markaðs- og samskiptamála. Hún skellti sér í nám í jákvæðri sálfræði hjá okkur í EHÍ og segir það einfaldlega hafa verið bestu ákvörðun lífs síns. Sjálf er Bára Mjöll mikil hreyfingar- og útivistarmanneskja og því lá beinast við að lokaverkefni hennar snérist um Hamingjugöngur með jákvæða inngripinu „þrír góðir hlutir“.
„Það var mikið fjallað um hamingjuna í náminu og hvernig við getum aukið hamingju okkar og vellíðan. Við gerðum til að mynda verkefni um jákvæð inngrip sem eru æfingar sem hafa jákvæð áhrif á vellíðan og hamingju og fann ég að mig langaði til að skoða það nánar. Þegar ég fór svo að huga að lokaverkefninu langaði mig að tvinna saman jákvæð inngrip og hreyfingu, þar sem ég hreyfi mig mjög mikið. Niðurstaðan var að bjóða upp á hamingjugöngur,“ segir Bára Mjöll og bætir við að sjálf hafi hún prófað jákvæð inngrip í nokkrar vikur og fundið mikinn mun. „Ég skrifaði niður í lok hvers dags eitthvað þrennt gott sem gerðist yfir daginn, hver minn þáttur var í því og rýndi svo betur í það. Þá áttaði ég mig á því að það er margt ótrúlega gott sem gerist sem við veitum vanalega ekki athygli. Þetta er alltaf spurning um hugarfar og að missa ekki sjónar af því sem við getum gert, sama hvað við glímum við hverju sinni. Lífsgæðin eru fólgin í því.“
Bára Mjöll segir að þó sé mikilvægt að viðurkenna veruleikann hverju sinni og að við megum hafa alls kyns tilfinningar. „Það er gott að tileinka sér vaxtarhugarfar og eins að einblína á styrkleika okkar, sjálfsmyndina og fleiri jákvæða þætti. Mér fannst mjög áhugavert hvað þessi jákvæðu inngrip geta haft mikil áhrif eftir stuttan tíma, eiginlega alveg magnað. Við erum svo gjörn á að einblína á það sem er að eða gengur ekki vel og þar kemur jákvæða inngripið þrír góðir hlutir sterkt inn. Sem dæmi geta litlir hlutir eins og bros haft smitandi áhrif og framkallað fleiri bros. Og þegar börnin okkar til að mynda biðja um einhvers konar samveru sem verður dýrmæt.“
Þrjár flugur slegnar í einu höggi með verkefninu
Lokaverkefni Báru Mjallar fólst í því að virkja verkfærin sem hún fékk í náminu þannig að hún bauð upp á Hamingjugöngur fyrir þátttakendur í Fjallkyrjuverkefnum Fjallafélagsins helgina 15. og 16. apríl sl. Áður en göngurnar hófust voru þátttakendur spurðir að því hversu hamingjusamir þeir væru á skalanum 1-10 og beðnir um að muna svarið. Einnig voru þeir beðnir um að hugsa um þrjá góða hluti meðan á göngunum stóð og hver þeirra þáttur var í þeim. Nokkur stopp voru nýtt í að fara yfir fleiri jákvæð inngrip sem geta haft áhrif á hamingju og vellíðan. Að göngunum loknum voru þátttakendur beðnir að framkæma jákvæða inngripið þrjá góða hluti daglega í viku og skrifa svörin niður. Þegar æfingavikunni lauk voru þeir svo spurðir að því hversu hamingjusamir þeir væru á skalanum 1-10 og hamingja þeirra fyrir og eftir jákvæða inngripið þrír góðir hlutir borin saman.
„Ástæðan fyrir því að mér fannst gaman að gera þetta úti við með hópi var að slá þrjár flugur í einu höggi; með útiveru, hreyfingu og félagslegum tengslum. Niðurstöðurnar voru í takti við niðurstöður rannsókna og það sem við höfðum lært um í náminu. Hamingja þátttakenda jókst, þeir tóku eftir því jákvæða sem áður hafði þótt eðlilegur hlutur, þeir fengu staðfestingu á hversu góð hreyfing úti í náttúrunni er og verkefnið gaf þeim tilefni til að hvetja fjölskyldumeðlimi til að gera eitthvað svipað.“
Áhrifin til staðar sex mánuðum síðar
Bára Mjöll leggur að lokum áherslu á að það hafi komið henni einna mest á óvart að jákvæð inngrip sem gerð eru í eina viku hafa mælanleg áhrif á hamingju strax að henni lokinni og áhrifin vara enn eftir sex mánuði. „Ég er svo þakklát fyrir þetta nám. Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Það er þroskandi á margan hátt og gefur fullt af verkfærum til að takast á við lífið hverju sinni, hvort sem um er að ræða einkalífið eða atvinnulífið; breytingastjórnun, mannauðsmál og fleira. Námið opnar einfaldlega augu manns fyrir alls konar og það verður auðveldara að takast á við alls kyns erfiðleika og mótlæti.“
Endurmenntun Háskóla Íslands vekur athygli á að umsóknarfrestur í nám í jákvæðri sálfræði hefur verið framlengdur til 26. júní og hér er að finna allar upplýsingar um þetta skemmtilega og nýtilega nám.