Góð þátttaka í Hönnunarkeppni HÍ
Hönnunarkeppni Háskóla Íslands var haldin í 31. skipti þann 4. febrúar síðastliðinn, sem hluti af UTmessu í Hörpu. Keppnin er skipulögð af nemendum í iðnaðarverkfræði og vélaverkfræði við Háskóla Íslands.
Keppnin gengur út á að búa til tæki sem leysir stutta braut með þrautum. Tækið verður að keyra af sjálfsdáðum og má ekki vera stjórnað af lifandi veru. Keppnin er opin öllum og veittu styrktaraðilar keppninnar, Marel og Verkís, vegleg verðlaun fyrir efstu sætin, en keppnin er einnig haldin í samstarfi við Verkfræðingafélag Íslands, Onno, Ölgerðina og Ský.
12 lið tóku þátt að þessu sinni, en þar af var einn róbóti sem leysti allar þrautir brautarinnar. Þrír róbótar leystu allar þrautir nema eina, sem var að lyfta steini upp á pall á brautinni. Sigurvegarinn í ár var Friðfinnur Már Þrastarson, 20 ára gamall nemandi á þriðja ári í tæknifræði við Háskóla Íslands. Í öðru sæti var Robert Kraciuk, nýútskrifaður úr tæknifræði og í þriðja sæti var lið skipað nemendum í eðlisfræði, hugbúnaðarverkfræði og vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Viðurkenningu fyrir frumlegustu hönnunina hlaut keppnisliðið Vélmennavinafélagið MK800, skipað nemendum í tæknifræði við Háskóla Íslands.
Dómnefnd skipuðu þrír starfsmenn iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar HÍ, þau Ásdís Helgadóttir dósent, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson prófessor og Rúnar Unnþórsson prófessor og deildarforseti. Auk þeirra sátu í dómnefnd þeir Sindri Ólafsson, technical leader hjá Marel og Vigfús Arnar Jósefsson, vélaverkfræðingur hjá Verkís.
Skipuleggjendur keppninnar þakka þátttakendum, dómnefnd og samstarfsaðilum kærlega fyrir vel heppnaða keppni í ár.
Myndir eru frá Ský/UTmessu.