Skip to main content
23. maí 2022

Góður árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum með hjartabilun

Góður árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sjúklingum með hjartabilun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá einstaklingum með hjartabilun er góður hér á landi og á pari við sérhæfðari og stærri hjartaskurðdeildir nágrannalanda okkar. Þetta á ekki síst við um langtímaárangur aðgerðanna, en hér á landi eru ákjósanlegri aðstæður en víða erlendis til að kanna langtímafylgikvilla og lifun eftir stórar skurðaðgerðir með því að styðjast við miðlæga gagnagrunna. Þótt sjúklingar með alvarlega hjartabilun hafi reynst hafa marktækt lakari langtímalifun en sjúklingar sem ekki glíma við hjartabilun, var lifun þeirra engu að síður góð í erlendum samanburði (69% á lífi 5 árum frá aðgerð). Frá þessu er sagt í grein vísindamanna HÍ og samstarfsfólks sem ber heitið „Long-term outcome of surgical revascularization in patients with reduced left ventricular ejection fraction—a population-based cohort study“ og birtist í nýjasta tölublaði Interactive CardioVascular and Thoracic Surgery.

Kransæðahjáveita er algengasta opna hjartaaðgerðin og er beitt þegar þrengingar ná til helstu kransæða hjartans. Hluti sjúklinga sem þurfa kransæðahjáveitu hefur fyrir löngu eða rétt fyrir aðgerð þróað með sér hjartabilun, oftast vegna hjartaáfalls sem veldur skertum samdrætti hjartans og hjartabilun. Erlendar ransóknir hafa sýnt að skammtímaávinningur kransæðahjáveitu í þessum hópi sjúklinga sé ekki síðri en hjá sjúklingum með betri samdrátt í hjartanu. Langtímaárangur aðgerðanna hefur hins vegar verið mun minna rannsakaður og markmið rannsóknarinnar var að bæta úr því.

Rannsóknin náði til 2005 sjúklinga sem gengust undir kranæðahjáveitu á árunum 2000-2016 hér á landi. Sjúklingum var skipt í tvo hópa eftir því hvort samdráttur í vinstri slegli hjartans var skertur eða ekki. Meðalaldur sjúklinga var 66 ár og konur voru tæplega 20% sjúklinganna. Skammtímafylgikvillar og 30 daga dánartíðni var umtalsvert hærri í hjartabilunarhópnum en hjá sjúklingum í viðmiðunarhópi og 5 ára lifun þeirra þrefalt lakari, eða 69% á móti 91%.

Rannsóknin sýnir að hægt er að framkvæma umfangsmikla skurðaðgerð eins og kransæðahjáveitu hjá sjúklingum með veikt hjarta þar sem árangur slíkra aðgerða, ekki síst til lengri tíma, stenst samanburð við stærri og sérhæfðari sjúkrahús erlendis. Enda þótt langtímalifun væri marktækt síðri en hjá sjúklingum sem ekki glímdu við hjartabilun fyrir aðgerð verður árangur að teljast góður í alþjóðlegum samanburði. Niðurstöðurnar eru jákvæðar fyrir þá sem koma að meðferðinni hérlendis en þó sérstaklega fyrir einstaklinga með hjartabilun sem þurfa kransæðahjáveitu og aðstandendur þeirra. 

Fyrsti höfundur greinarinnar er Helga Björk Brynjarsdóttir, sérnámslæknir í gigtarlækningum við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð, en leiðbeinandi hennar í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ.

Greinina má nálgast hér
 

Helga Björk Brynjarsdóttir