Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini
Styrktarfélagið Göngum saman veitti fyrr í vikunni 15 milljónir króna í styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og komu þeir í hlut vísindafólks og nemenda við Háskóla Íslands. Þetta var í sextánda skipti sem Göngum saman úthlutar slíkum styrkjum og hefur þar með veitt um 150 milljónir króna til brjóstakrabbameinsrannsókna frá stofnun félagsins árið árið 2007.
Sex manns fengu styrk að þessu sinni:
- Aðalgeir Arason, náttúrufræðingur við Landspítala og klínískur dósent við Háskóla Íslands, hlaut 2,1 milljónir króna til verkefnisins „Ítarleg könnun litningssvæða sem valda fjölgena brjóstakrabbameinsáhættu“
- Birta Dröfn Jónsdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,9 milljónir króna til verkefnisins „ALKBH3 og FTO: Nýir stjórnendur á viðgerðum á tvíþátta DNA brotum í brjóstakrabbameinum“
- Erna María Jónsdóttir, doktorsnemi við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins „Marksækni sérhannaðra utanfrumubóla gegn EGFR (HER-1) jákvæðum brjóstakrabbameinsfrumulínum“
- Jens G. Hjörleifsson, lektor í lífefnafræði við Háskóla Íslands, hlaut 2 milljónir króna til verkefnisins „Þróun EGFR hindrandi peptíða gegn brjóstakrabbmeini: Fjölþátta nálgun“
- Snævar Sigurðsson, sérfræðingur við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut 2 milljónir króna til verkefnisins „Nýjar aðferðir við arfgerðargreiningar á brjóstakrabbameinum“
- Valdís Gunnarsdóttir Þormar, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins meðumsækjendur „Mynstur smásameinda í brjóstakrabbameinum: Möguleg lífmerki fyrir snemmgreiningu“
Um Göngum saman
Vísindasjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini enda eru þær forsenda framfara í vísindum. Rannsóknarverkefni eru metin skv. faglegu gæðamati en auk vísindanefndar Göngum saman leggur ytri ráðgjafanefnd mat á umsóknirnar. Styrkveitingin byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, sem voru margvíslegar í ár, s.s. áheit á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu, kaupum á Brjóstasnúðum Brauð & co í tilefni Mæðradagsins og kaupum á ýmsum söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í vísindasjóð félagsins. Göngum saman hefur veitt um 150 milljónir króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007.