Gott að skrifa um líðan og reynslu
Stöllurnar Ásdís Káradóttir og Sæunn Þórisdóttir kenna hagnýt og skemmtileg námskeið hjá Endurmenntun HÍ, Upp úr skúffunni og Hugsanir, líðan og orð. Þær kynntust í námi í HÍ þar sem þær lögðu stund á bókmenntafræði, ritstjórn og ritlist. Einn daginn datt þeim í hug að gera eitthvað skemmtilegt saman og það varð úr og þær segja það enn vera skemmtilegt. Við gripum þær í smá spjall um námskeiðin og hversu mikið það gerir fyrir fólk að koma hugmyndum og hugsunum í orð og jafnvel gefa út.
Ásdís Káradóttir er með MA-gráðu í ritlist, BA í bókmenntafræði. Hún er hjúkrunarfræðingur með framhaldsnám í sálgæslu og Jóga Nidra kennsluréttindi. Sæunn er með MA-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í almennri bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein. Hún starfar sem bókaritstjóri og hefur aðstoðað höfunda við sjálfsútgáfur. Svo prófarkahlustar hún og ritstýrir fyrir Storytel.
Upp úr skúffunni
Hvað kemur þátttakendum á námskeiðinu mest á óvart?
Það kemur nemendum ávallt á óvart hvað þeir geta og hversu góðan texta þeir skila frá sér þegar búið er að ritstýra þeim, stundum með örlitlum ábendingum. Þeir hafa kannski aldrei lesið textann upphátt og fengið gagnrýni. Tveir af nemendum síðasta námskeiðs eru komnir með verk sín í ritstjórn og útgáfuferli er hafið.
Hvaða sniðugar aðferðir til að losa um ímyndunaraflið má deila með áhugasömum lesendum?
Nota kveikjur sem eru allt um kring; myndir, fréttir, kort, textar, samtal og svo margt fleira.
Hversu lengi hafið þið kennt fólki að ná verkum sínum upp úr skúffum sínum?
Við höfum haldið námskeið víðs vegar í tvö ár og auk þess hlotið æfingu í námi okkar.
Hvers konar verk hafa orðið til á námskeiði hjá ykkur (eða í kjölfarið)?
Eins og fyrr er sagt, eru tvö verk í vinnslu frá síðasta námskeiði í Endurmenntun. Auk þess hefur komið út verk sem tókst á flug á námskeiði í bókasafni, Eiginkona Bipolar2, og byggir á lífsreynslu höfundar. Verk sem er í útgáfu- og styrkferli, þar sem höfundur sótti námskeið hjá okkur og er í ritstjórn okkar. Auk annarra verka sem við höfum ritstýrt og hafa verið gefin út.
Hugsanir, líðan og orð
Hvers vegna er mikilvægt að koma hugsunum sínum og líðan í orð?
Rannsóknir sýna og fræðimenn hafa rannsakað að það er hverjum manni mikilvægt að vinna úr erfiðri reynslu. Þá ber að hafa í huga hvernig orðræðan beinist að því sem vart er hægt að orða, eins og t.d. líkamlegum og andlegum sársauka en honum verður e.t.v. best lýst með líkingum og þá er kjörið að skrifa um líðan sína til að vinna úr því sem er erfitt og þar með öðlast betri líðan. Margir skrifa sendibréf sem aldrei eru send en tilgangnum er náð með því að skrifa.
Hvernig tengið þið slíka sköpun og Jóga Nidra saman?
Jóga Nidra er dásamleg djúpslökun og þegar við náum að slaka djúpt á þá koma oft upp minningar og líðan sem dulvitundin geymir og eftir slíka djúpslökun er kjörið að skrifa strax það sem kemur upp í hugann.
Getið þið nefnt dæmi um góðan árangur þátttakanda/þátttakenda?
Við höfum fengið afar jákvæðar umsagnir á öllum námskeiðum okkar, margar góðar ábendingar sem við reynum eftir bestu getu að fylgja eftir og svo hefur verið svo gaman hjá okkur. Við höfum verið með námskeið í bókasöfnum, Endurmenntun HÍ, hjá vélstjórnarmönnum, Krabbameinsfélaginu þannig að hóparnir eru mismunandi.