Greinasafn til heiðurs Heinrich Beck
Út er komið greinasafnið Germanisches Altertum und europäisches Mittelalter til heiðurs og til minningar um Heinrich Beck, prófessor við háskólann í Bonn í Þýskalandi, sem lést níræður að aldri 5. júní 2019. Jan Alexander van Nahl, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Wilhelm Heizmann, fyrrverandi prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í München, ritstýrðu bókinni en útgefandi er vísindaforlagið de Gruyter. Í bókinni er að finna 25 kafla um fjölbreytt efni á nokkrum tungumálum, m.a. um bókmenntafræði, málvísindi, fornleifafræði, sagnfræði og lögfræði. Allar eiga greinarnar sammerkt að fjalla um evrópska menningu frá fornöld til 21. aldar.
Heinrich Beck var framarlega í flokki fræðimanna á sviði germanskrar fornaldarfræði og norrænnar miðaldafræði. Hann lagði stund á kennaranám í Þýskalandi og Bandaríkjunum og hóf svo nám í þýskum, skandinavískum og indóevrópskum fræðum við Háskólann í München en kom til Íslands árið 1958 sem skiptinemi við Háskóla Íslands. Þar kynntist hann m.a. fræðimönnum eins og Einari Ól. Sveinssyni, sem áttu eftir að hafa áhrif á hann. Beck lauk doktorsprófi í forngermönskum fræðum árið 1962 og tók skýrt fram í formála doktorsritgerðarinnar að kennsla Einars hefði haft rík áhrif á hann. Hann kláraði doktorsritgerðina hina meira (Habilitation) árið 1967 og var skipaður dósent í forngermönskum og norrænum fræðum við Háskólann í München sama ár. Árið 1968 varð hann prófessor við Háskólann í Saarbrücken og prófessor við Háskólann í Bonn frá 1978 þar sem hann stofnaði bæði til meistara- og doktorsnáms í skandinavískum fræðum.
Heinrich Beck var prófessor við háskólann í Bonn í Þýskalandi. Honum var veitt fálkaorðan fyrir störf sína árið 1988.
Árið 1973 hóf Beck eitt fyrsta rannsóknarverkefnið í alþjóðlegri miðaldafræði sem nýtti tölvutækni en markmið þess var að prófa afkastagetur tölvuforrita í sjálfvirkum þýðingum og greiningum á forníslenskum lagatexta. Þá var Beck aðalútgefandi alfræðibókaraðarinnar Reallexikon der Germanischen Altertumskunde frá 1972 til 2008 og stofnandi bókaraðarinnar Ergänzungsbände zum Reallexikon der Germanischen Altertumskunde. Jafnframt birti Beck mikinn fjölda af greinum og bókaköflum um rúnir og fornleifafundi, forntrú og góðafræði, lögfræði, umhverfisvitund og hermennsku á miðöldum, um germanskan kveðskap og miðaldabókmenntir, en líka um aðferðafræði og áskoranir í (þýskum) miðaldafræðum í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.
Heinrich Beck hafði sterk tengsl við fræðimenn um heim allan. Árið 1994 gáfu 39 aljóðlegir fræðimenn út hátíðarrit Heinrich til heiðurs og árið 2001 var hann skipaður heiðursdoktor við Háskólann í Minnesota. Honum var veitt fálkaorðan árið 1988 og segir Jan Alexander van Nahl að Beck hafi alltaf þótt sérstaklega vænt um Ísland þar sem áhugi hans á íslenskum miðaldabókmenntum hafi kviknað á skiptinemaárum hans á sjötta áratugnum. Þá má nefna að Beck varð einn fyrsti þýski fræðimaðurinn sem tók upp kenningar um strúktúralisma í rannsóknum á Íslendingasögunum, en einnig skrifaði hann um Eddukvæði og Fornaldarsögur í evrópsku samhengi. Síðar lagði hann sérstaka áherslu á rannsóknir á Eddu Snorra Sturlusonar og setti fram nýja heildartúlkun á henni, m.a. í tveimur fræðiritum sem Vísindaakademían í Göttingen gaf út 1994 og 2016.