GRÓ-GEST með fimm opin netnámskeið í alþjóðlegum jafnréttisfræðum
Aðstandendur Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) fögnuðu opnun þriggja edX-netnámskeiða í alþjóðlegum jafnréttisfræðum á Litla Torgi síðastliðinn föstudag. Alþjóðlegt teymi sérfræðinga, sem hefur komið að gerð þeirra, fjallaði um efni þeirra og setti í samhengi við þróun heimsmála í dag. Tvö netnámskeið til viðbótar á vegum Jafnréttisskólans verða opnuð á næsta ári.
Netnámskeiðin eru þáttur í starfsemi Jafnréttisskólans GRÓ-GEST sem er rekinn við Háskóla Íslands undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
edX var stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT og margir af virtustu háskólum heims taka þátt í þessum vettvangi. Markmið edX er að bjóða upp á opin netnámskeið fyrir háskólanema og fróðleiksfúsan almenning um heim allan. Um er að ræða svokölluð MOOCs (Massive Online Courses) en námskeiðin eru opin öllum og engar fjöldatakmarkanir. Vinsæl námskeið innan edX geta því verið mjög fjölmenn, allt upp í nokkra tugi þúsunda þátttakenda.
Nemendur frá 170 löndum sótt námskeið GRÓ-GEST
Þegar GRÓ GEST hóf þátttöku í edX-samstarfinu árið 2019 var unnin áætlun um gerð fimm námskeiða og var markmiðið að geta að lokum boðið upp á edX MicroMasters® eða viðbótardiplóma sem samanstæði af þessum fimm námskeiðum. Fyrsta edX-netnámskeið GRÓ-GEST fór í loftið árið 2020 og hlaut afbragðsviðtökur strax á fyrstu dögunum eftir að því var hleypt af stokkunum. Tvö námskeið hafa síðan bæst við, eitt í fyrra og annað í ár.
Frá árinu 2020 hafa 15 þúsund manns frá 170 löndum skráð sig á námskeiðin þrjú og hafa 600 nemendur lokið þeim með edX-skírteini frá Háskóla Íslands. Til að hljóta slíkt skírteini þarf að greiða þátttökugjald en að öðru leyti eru námskeiðin öllum opin og endurgjaldslaust. Þátttaka fólks frá lágtekju- og/eða átaksvæðum ekki síst áberandi enda námsframboð á slíkum svæðum oft takmarkað.
Um er að ræða námskeiðin:
1. Gender and intersectionality — Kyngervi og samtvinnun, opnað í febrúar 2020. Námskeiðið er inngangsnámskeið í jafnréttisfræðum með áherslu á útvíkkun jafnréttishugtaksins, margþætta mismunun, skörun og samtvinnun.
2. Gender, Violence and Post-Conclict States — Kyngervi, ofbeldi og fyrrum átakasvæði, opnað í ágúst 2022. Námskeiðið snýr að átökum og friðaruppbyggingu en þekking á því hvaða hlutverki kyn (sex) og kyngervi (gender) gegna þegar ofbeldi er beitt í átökum og/eða í kjölfar þeirra er nauðsynleg hverjum þeim er starfar eða hyggur á störf á vettvangi þróunarsamvinnu og/eða friðaruppbyggingar.
3. Gender and Development: Critical Theories and Approches — Þróunarsamvinna í kynjuðu ljósi, opnað í febrúar 2023. Í námskeiðinu eru þróunarmál og þróunarsamvinna skoðuð ofan í kjölinn og frá ólíkum hliðum.
4. Men, Boys and Masculinities — Karlmenn, drengir og karlmennska, opnað í febrúar 2024.
5. Gender and Climate Change — Kyngervi og loftslagsbreytingar, opnað í desember 2024.
Nokkrir af fulltrúum Jafnréttisskólans, sem komið hafa að þróun netnámskeiðanna, fagna góðu verki.
Framleiðsla netnámskeiða GRÓ-GEST fer fram í samstarfi við kennslumiðstöð HÍ sem stýrir þátttöku Háskóla Íslands í edX undir heitinu UIcelandX. Gerð námskeiðanna hefur verið m.a. verið styrkt af Kennslumiðstöð Háskóla Íslands, Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og GRÓ – Þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu.
Alþjóðlegur hópur fræðafólks kemur að námskeiðunum
Dr. Thomas Brorsen Smidt, námsstjóri GRÓ-GEST, og dr. Giti Chandra, fræðimaður, sem bæði eru starfsmenn Jafnréttisskólans, hafa haldið utan um framleiðslu námskeiðanna fyrir hönd skólans en að þeim kemur, auk þeirra, fjöldi erlendra sérfræðinga sem starfar við erlendar rannsókna- og/eða háskólastofnanir og er leiðandi á sínum sérsviðum á alþjóðavísu. Þau hafa öll tengst með einum eða öðrum hætti starfsemi Jafnréttisskólans, hvort sem það er í gegnum ólík netverk sem hann tengist, kennslu eða rannsóknir.
Um Jafnréttisskóla GRÓ-GEST
Alþjóðlegum jafnréttisskóla var komið á fót við Háskóla Íslands sem tilraunaverkefni árið 2009. Árið 2013 fékk hann aðild að neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna og frá því í janúar 2020 er hann starfræktur undir merkjum GRÓ — þekkingarmiðstöðvar um þróunarsamvinnu og UNESCO. Skólinn er rekinn við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og er liður alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Frá stofnun hafa 213 nemendur frá 31 landi brautskráðst frá honum með diplóma í alþjóðlegum jafnréttisfræðum.