Guðmundur Felix heimsótti sjúkraþjálfunarnema í HÍ
Nemendur í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands fengu heldur betur góðan gest í heimsókn í Stapa í gær en þar var á ferðinni Guðmundur Felix Grétarsson. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir baráttu sína í kjölfar alvarlegs vinnuslyss sem hann varð fyrir 25 ára gamall en Guðmundur fékk í upphafi árs grædda á sig handleggi í aðgerð í Frakklandi sem talin er marka tímamót í læknavísindum. Heimsóknin var að frumkvæði Virtus, félags sjúkraþjálfunarnema.
Í heimsókn sinni ræddi Guðmundur við sjúkraþjálfunarnema um endurhæfingu sína eftir handleggjaágræðsluna en þar gegna aðferðir sjúkraþjálfunar mikilvægu hlutverki og munu gera áfram næstu misseri.
Guðmundur sýndi nemendum m.a. myndband þar sem farið var yfir þær aðferðir í sjúkraþjálfun sem beitt hefur verið eftir aðgerðina, en þær snerta allt frá því að kalla fram hreyfingar í öllum liðamótum efri útlima og eiga við örvef yfir í flóknari þjálfun virkra hreyfinga og notkun raförvunar til að fá fram samdrætti í vöðvum framhandleggja og lófa. Guðmundur fór líka yfir muninn á aðgerðum á hægri og vinstri hluta líkamans sem að sögn nemenda var mjög áhugavert út frá sjónarhóli líffærafræði. Auk þess svaraði Guðmundur fjölmörgum spurningum bæði nemenda og kennara á fundinum.
Háskóli Íslands þakkar Guðmundi Felix kærlega fyrir komuna.