Skip to main content
26. maí 2023

Gunnar Stefánsson verður aðstoðarrektor vísinda við Háskóla norðurslóða

Gunnar Stefánsson verður aðstoðarrektor vísinda við Háskóla norðurslóða - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Háskóli norðurslóða (University of the Arctic) hafa gert með sér samstarfssamning um að Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, verði aðstoðarrektor vísinda hjá UArctic til næstu fimm ára. Þetta er mjög ánægjulegt í ljósi mikilvægi þess að samstarf háskóla á norðurslóðum sé ríkulegt. 

Norðurslóðir standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem krefjast samvinnu á sviði rannsókna og kennslu. Með þessu móti verður Háskóli Íslands leiðandi í netverki háskóla norðurslóða en háskólinn á meðal annars einnig fulltrúa í stjórn UArctic.
 
Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrita samninginn á Litla Torgi (Háskólatorgi) þriðjudaginn 30. maí kl. 12–13 á opnu málþingi um mikilvægi rannsóknasamstarfs á norðurslóðum. 

Málþingið sækja nemendur úr samstarfsverkefninu ARCADE sem Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands heldur utan um í samstarfi við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Háskólann í Nuuk á Grænlandi, Háskólann í Tromsø í Noregi, Arctic Initiative við Harvard Kennedy skólann og Hringborð norðurslóða. Nánari upplýsingar um ARCADE.

Erindi á málþinginu flytja 

  • Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og formaður Hringborðs Norðurslóða
  • Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
  • Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða (UArctic)
  • Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi
  • Tove Søvndahl Gant, sendiherra Grænlands á Íslandi
  • Fundarstjóri: Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands.

Málþingið er öllum opið.

Gunnar Stefánsson