Skip to main content
19. apríl 2022

Hafa rannsakað áhrif umhverfis og heilsu á öndunarfæri þjóðarinnar í 30 ár

Hafa rannsakað áhrif umhverfis og heilsu á öndunarfæri þjóðarinnar í 30 ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknarhópur við Háskóla Íslands og Landspítala undir forystu þeirra Þórarins Gíslasonar, prófessors emeritus við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknis lungna- og svefndeildar Landspítala, og Bryndísar Benediktssdóttur, prófessors emeritus og heimilislæknis, ýtir nú úr vör nýjum áfanga fjölþjólegrar rannsóknar á áhrifum umhverfis, lífsstíls, svefns og heilsu á öndunarfæri þjóðarinnar sem staðið hefur yfir í rúmlega 30 ár. Rannsóknir hópsins hafa nú þegar leitt margt mjög forvitnilegt í ljós, m.a. að ef faðir reykir fyrir getnað barns, einkum ef hann byrjaði fyrir 15 ára aldur, eru afkomendur hans mun líklegri að hafa minnkaða lungnastarfsemi, astma og ofnæmi.

Verkefnið ber heitið Evrópurannsóknin Lungu og heilsa (The European Community Respiratory Health Survey - ECRHS) og að því kemur stór hópur vísindamanna víða um Evrópu en einnig í Ástralíu. Rannsóknin hófst árið 1990 meðal fólks sem þá var á aldrinum 20-44 ára, m.a. sem viðbragð við fjölgun astmatilfella í heiminum, en vísbendingar voru um að umhverfisþættir ættu þar hlut að máli. Rannsóknin tekur til slembiúrtaks tugþúsunda karla og kvenna, sem öllum hefur verið boðin þátttaka út frá sömu forsendum og að fara í nákvæmlega eins rannsóknir. Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi og eðli astma og ofnæmis ásamt breytingum á lungnastarfsemi og tengsl þessa við fjölmarga áhættuþætti í lífsstíl, umhverfi og heilsufari. Þar er m.a. horft til uppvaxtar, búsetu, reykinga, skaðlegra efna í umhverfi, mataræðis, holdafars, svefns, hreyfingar, andlegrar og líkamlegrar heilsu, lífsgæða, lyfjanotkunar og fleiri þátta.

Afkomendur fyrstu þátttakenda líka rannsakaðir

„Evrópurannsóknin Lungu og heilsa  er langviðmesta vísindarannsóknin sem við höfum komið að á okkar ferli, en henni tengjast m.a. fjölþjóðarannsóknirnar Respiratory Healt in Northern Europe (RHINE)  og Respiratory Health In Northern Europe, Spain and Australia (RHINESSA), en sú síðastnefnda er rannsókn á afkomendum upphaflegu þátttakendanna í Evrópukönnuninni,“ útskýrir Bryndís.

„Það er ekki síst þetta sem gerir rannsóknina einstaklega áhugaverða, þ.e. að afkomendur þátttakenda hafa verið rannsakaðir á sama hátt og upplýsingum um foreldra þeirra hefur einnig verið safnað. Þetta gerir okkur kleift að sjá hvernig lífsstíll og umhverfi foreldra hefur áhrif á heilsu næstu kynslóða,“ bætir Þórarinn við.

Thorarinn

Þórarinn Gíslason, prófessors emeritus við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknir lungna- og svefndeildar Landspítala.

Þátttakendum í rannsókninni hefur frá árinu 1990 verið fylgt eftir á 10-12 ára fresti og fór 2. hluti rannsóknarinnar fram árið 2000 og sá þriðji árið 2012. Nú er komið að fjórða hluta rannsóknarinnar eða 30 ára eftirfylgd og þáttakendur eru nú á aldrinum 50-70 ára.  

Nú þegar hefur almennur spurningalisti verið lagður fyrir rúmlega 2.000 þátttakendur hér á landi í tengslum við RHINE- rannsóknarverkefnið en jafnframt á að leggja fyrir ítarlegri spurningalista og ráðast í klínískar rannsóknir hjá þeim hópi sem tekið hefur þátt í rannsókninni allan tímann og hefur samþykkt að taka áfram þátt í henni. Með þessu fást einstakar upplýsingar um þróun lungnaheilsu hjá stórum hópi yfir stóran hluta ævinnar.

Reykingar foreldra fyrir getnað hafa áhrif á lungnastarfsemi afkomenda

Hundruð vísindagreina hafa birst á grunni rannsóknarinnar þar sem fjallað er um lungnasjúkdóma, eins og astma og langvinna lungnateppu, og áhrif þátta í inni- og útiumhverfi, t.d. myglu og loftmengunar, á framþróun þeirra. 

„Í fyrstu áföngum rannsóknarinnar var algengi astma og ofnæmis á Íslandi með því lægsta sem gerist i heiminum en það hefur vaxið og nálgast það sem er í nálægum löndum. Um er að ræða flókið samspil margra þekktra og óþekktra áhættuþátta sem mikilvægt er að kanna betur,“ segir Þórarinn m.a. um niðurstöður rannsóknarinnar en hann á sæti í stýrihópi ECRHS.

Þórarinn og Bryndís benda enn fremur á aðstæður á Íslandi séu um margt sérstakar þegar kemur að innri og ytri umhverfisþáttum sem geta haft áhrif á lungnaheilsu. Hitastig á heimilum sé mun hærra hér en í nálægum löndum, loftraki mun minni og engir rykmaurar finnast hér. „Utanhúss er meðalloftmengun fremur lítil en sérstaða hennar hér á suðvesturhorninu felst m.a. í brennisteinsdíoxíðmengun frá Hellisheiðarvirkjun og áhrifum ósonmengunar á vormánuðum,“ segir Þórarinn.

Þegar þau innt eftir frekari niðurstöðum rannsókna bendir Bryndís á að almennt sé þekkt að umhverfi mæðra á meðgöngu geti haft áhrif á heilsu barns og því er í mæðravernd lögð mikil áhersla á að konur reyki ekki á meðgöngu. Minna sé vitað um það hvernig umhverfi og lífstíll feðra og kynslóðarinnar á undan hefur á ófædd börn. „Í rannsókninni horfðum við ekki bara til þess tíma sem barn er í móðurkviði heldur einnig á tímann fyrir getnað,“ útskýrir hún.

folk

Gögn um rúmlega 21.000 foreldra og afkomendur þeirra á aldrinum 2-51 árs voru því skoðuð í þessum tilgangi. „Niðurstöður leiddu í ljós að ef faðir reykti fyrir getnað barns, einkum ef hann byrjaði að reykja fyrir 15 ára aldur, voru afkomendur hans mun líklegri að glíma við minnkaða lungnastarfsemi, astma og ofnæmi. Þetta gilti jafnvel þótt faðirinn hefði hætt að reykja 5 árum fyrir getnað barnsins. Það sama átti við ef faðir hafði unnið við logsuðu eða verið útsettur fyrir málmgufum fyrir getnað barns,“ segir Þórarinn enn fremur en bætir við að ekki hafi fundist sömu tengsl eftir fæðingu barns eða milli reykinga móður fyrir getnað. „En ef föðuramma reykti á meðgöngu voru ömmubörnin hennar líklegri til að hafa minnkaða lungnastarfsemi, astma eða ofnæmi. Einnig kom í ljós að ef faðir var í yfirþyngd sem barn og einkum kringum kynþroska voru afkomendur hans líklegri til að hafa skerta lungnastarfsemi og astma.“ 

Að sögn þeirra Bryndísar og Þórarins benda þessar niðurstöður til þess að huga eigi betur að forvörnum þegar kemur að lífsstíl og skaðlegu umhverfi drengja í kringum kynþroska. „Líklegt er að skaðleg efni í innöndunarlofti og efnaskipti geti haft skaðleg áhrif á sæðisfrumur en nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir til staðfestingar því,“ segja þau. 

Að Evrópurannsókninni Lungu og heilsa (The European Community Respiratory Health Survey - ECRHS) kemur stór hópur vísindamanna víða um Evrópu en einnig í Ástralíu. Rannsóknin hófst árið 1990 meðal fólks sem þá var á aldrinum 20-44 ára, m.a. sem viðbragð við fjölgun astmatilfella í heiminum, en vísbendingar voru um að umhverfisþættir ættu þar hlut að máli.

Áhættuþættir í lífsstíl og umhverfi hafa ekki sömu áhrif á kynin

Rannsóknin hefur einnig staðfest niðurstöður fyrri rannsókna um að reykingar móður á meðgöngu hafa áhrif á öndunarfæraheilsu ófædds barns. „Þá kom líka í ljós að ef móðir vann við ræstingar og notaði hreinsiefni, hvort sem það var fyrir getnað barns, kringum getnað eða á meðgöngu, voru afkomendur líklegri að hafa astma,“ segir Bryndís.

Algengast er að í rannsóknum séu niðurstöður séu birtar sameiginlega fyrir konur og karla en að sögn Þórarins hefur komið í ljós að ekki er hægt að fullyrða að áhættuþættir í lífsstíl og umhverfi hafi sömu áhrif á öndunarfæra heilsu kvenna og karla. „Sjúkdómsmynd og framvinda sjúkdóma getur verið talsvert ólík eftir kyni. Áhrif kynhormóna eru víðtæk á bæði líkamlega og andlega heilsu. Í Evrópukönnuninni Lungu og heilsa var heilsa kvenna og karla skoðuð sérstaklega með spurningalistum sem sneru að kyni þeirra. Niðurstöður okkar sýna að einkenni frá öndunarfærum eins og hósti, mæði, píp og surg eru breytileg eftir því hvar konan er stödd í tíðarhring og þau eru hvað minnst við egglos. Þessi vitneskja gæti gert meðferð við þessum einkennum markvissari. Þegar rúmlega 2.000 konum, sem ekki höfðu astma við upphaf rannsóknar, var fylgt eftir að meðaltali í 12 ár var nýgreindur astmi þrisvar sinnum algengari meðal þeirra kvenna sem fóru í tíðarhvörf en hjá konum í sama aldurshópi sem enn voru á blæðingum,“ segir Þórarinn.

Bryndis

Bryndís Benediktsdóttir, prófessor emeritus og heimilislæknir.

Þau Bryndís benda á að almennt versni lungnastarfsemi fólks með aldrinum og rannsóknir hópsins hafi sýnt að starfsemin versni mun hraðar við tíðarhvörf en aldur segir til um. Sú spurning hafi því vaknað hjá hópnum hvort hægja mætti á þessari þróun með því að gefa konum kvenhormón. „275 konum sem tóku kvenhormón var fylgt eftir með mælingum á lungnastarfsemi í 20 ár og niðurstöður þeirra mælinga bornar saman við breytingar á lungnastarfsemi 383 kvenna sem ekki tóku kvenhormóna. Niðurstöður sýndu að lungnastarfsemi minnkaði hægar meðal þeirra kvenna sem tóku kvenhormón og í réttu hlutfalli við þann tíma sem hormónameðferðin varaði,“ segir Bryndís.

Hún segir greinilegt að kvenhormónar verndi lungnastarfsemi, „en það er ekki þar með sagt að allar konur ættu að taka kvenhormóna. Sú meðferð getur haft óæskilegar aukaverkanir og verður að velja vel hverjum hún hentar.“ 

Kæfisvefn algengari en áður var talið

Hópurinn hefur rannsakað ótal fleiri þætti sem tengjast heilsu og lífsstíl fólks. Einn af þeim er svefn en Þórarinn og Bryndís hafa áratugareynslu af rannsóknum á kæfisvefni, m.a. í samvinnu við teymi bandarískra vísindamanna. Þau skimuðu alla þátttakendur hér á landi í þriðja áfanga ECRHS-rannsóknarinnar fyrir kæfisvefni og reyndist hann mun algengari en áður hafði verið talið. Fimmtán prósent reyndust vera með með kæfisvefn á meðal- eða háu stigi og ekki nú þegar á meðferð og var þeim hópi því boðin meðferð með svefnöndunartæki.

„Kæfisvefn eykur m.a. líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi og heilaáföllum. Það getur því verið til mikils að vinna að greina kæfisvefn og meðhöndla snemma,“ segir Þórarinn og bætir við að í fjórða áfanga ECRSH verði öllum þátttakendum hér á landi boðið að fara aftur í næturmælingu. „Eftirfylgd ECRSH-hópsins á Íslandi mun veita okkur mjög gagnlega upplýsingar um heilsufarslegan ávinning þess að skima fyrir kæfisvefni. Jafnframt höfum við hug á að bera saman þróun einkenna og breytingar á heilsu á þessu 12 ára tímabili.“ 

Hópurinn nýtir m.a. nýja aðferð til þess að kanna kæfisvefn en hún felst í að mæla ný boðefni í blóði. „Væntingar eru um að slíkar mælingar geti í framtíðinni orðið til þess að blóðprufa komi í stað hefðbundnar svefnmælingar þar sem nú þarf að sofa heila nótt tengdur ótal snúrum,“ segir Þórarinn enn fremur. 

Svefnlengd og einkenni tengd svefni liggja í fjölskyldum

Rannsóknarhópurinn skoðaði líka hvernig svefnlengd og einkenni tengd svefni birtust meðal tæplega 6.000 foreldra og jafnmargra afkomenda þeirra. „Svefnleysi og einkenni svefnleysis, þ.e. að eiga erfitt með að sofna og vakna oft upp á næturna, var marktækt algengara meðal afkomenda þeirra foreldra sem höfðu sömu einkenni. Það sama kom í ljós þegar hrotur, dagsyfja og það að sofa styttra en 6 klst/nóttu var skoðað. Niðurstaða okkar er að svefnlengd og einkenni tengd svefni liggja marktækt í fjölskyldum þrátt fyrir að leiðrétt hafi verið fyrir lífsstíl, umhverfi og þekktum áhættuþáttum. Þessi niðurstaða styður að ekki er öllum eiginlegt að sofa jafnlengi og að vafasamt er að nefna ákveðinn fjölda klukkustunda sem kjörsvefnlengd fyrir alla einstaklinga á sama aldri,“ segir Bryndís. 

Sá alþjóðlegi hópur sem stendur að Evrópurannsókninni Lungu og heilsa vinnur einnig saman að öðrum verkefnum sem tengist heilsufari og umhverfisþáttum. Þar er leitað svara við mikilvægum spurningum í stórum gagnagrunnum, sem hafa að geyma upplýsingar um alla einstaklinga í samfélaginu og ná yfir mörg ár. „Á vormánuðum verða kynntar íslenskar rannsóknarniðurstöður sem taka til 60.000 barna á áratugatímabili, notkunar þeirra á astmalyfjum, komur á sjúkrahús vegna öndunarfæraeinkenna og upplýsinga um fæðingarþyngd. Þar er metið hvort búseta m.t.t. loftmengunar tengist auknum líkum á astma- og öndunarfæraeinkennum. Slíkar úrvinnsluaðferðir ættu einnig að geta varpað ljósi á hvort það séu fyrir hendi merki um slæm heilsufarsáhrif af t.d. eldgosum sem gefa þá samfélaginu færi á að bregðast við með fyrirbyggjandi aðgerðum,“ segja þau Bryndís og Þórarinn að endingu.

Þórarinn Gíslason og Bryndís Benediktsdóttir lengst til vinstri ásamt tveimur samstarfskonum sínum, þeim Helgu Norland og Hjördísi Sigrúnu Pálsdóttur.