Skip to main content
12. febrúar 2025

Hagstofan og HÍ efla rannsóknir í félagsvísindum

Hagstofan og HÍ efla rannsóknir í félagsvísindum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands og Hagstofu Íslands hafa gert með sér samkomulag um að auka samstarf sitt með það fyrir augum að efla rannsóknir og greiningar á sviði félagsvísinda og vinna sameiginlega að því að byggja upp rannsóknainnviði. Samstarfssamningur var undirritaður í Háskóla Íslands nýverið.

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands annast framkvæmd samningsins af hálfu skólans en hann felur í sér að akademísku starfsfólki og öðrum sérfræðingum sviðsins gefst tækifæri til að vinna rannsóknir eða greiningar í samstarfi við Hagstofu Íslands eða að framgangi verkefna sem lúta að innlendum rannsóknarinnviðum og bættri þjónustu við innlenda rannsakendur. Um leið fær Hagstofan til liðs við sig metnaðarfulla fræðimenn til að sinna afmörkuðum, tímabundnum verkefnum.

Í samkomulaginu felst að akademískt starfsfólk og aðrir sérfræðingar Félagsvísindasviðs geta fengið aðgang að aðstöðu, gögnum og aðstoð sérfræðinga hjá Hagstofunni við vinnu að fyrir fram ákveðnum og vel skilgreindum verkefnum. Gert er ráð fyrir að rannsóknagögnin sem verða til á grundvelli samstarfsverkefna stofnananna verði gerð aðgengileg öðrum áhugasömum eftir nánara samkomulagi.

Samningurinn kveður enn fremur skýrt á um að farið verið í einu og öllu að lögum við meðferð gagna sem nýtt eru til rannsókna, þar á meðal lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, reglur Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna og lög um Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 

Samninginn undirrituðu Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri samskiptasviðs Hagstofu Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Auk þeirra var viðstödd undirritunina Arndís Vilhjálmsdóttir, rannsóknastjóri Hagstofu Íslands.

Samninginn undirrituðu Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri samskiptasviðs Hagstofu Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Auk þeirra var viðstödd undirritunina Arndís Vilhjálmsdóttir, rannsóknastjóri Hagstofu Íslands.