Háskólalestin heimsækir Dalvík um helgina
Dalvík er þriðji áfangastaður Háskólalestar Háskóla Íslands þetta vorið en lestin heimsækir sveitarfélagið dagana 19. -21. maí með fjölbreytta dagskrá. Í boði verða bæði kennarasmiðjur og námskeið fyrir grunnskólanemendur og glæsileg vísindaveisla fyrir Dalvíkinga og nærsveitarfólk í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík laugardaginn 21. maí kl. 12-16. Þar býðst fólki á öllum aldri að kynnast undrum vísindanna með gangvirkum og lifandi hætti í gegnum fjölbreytt tæki, tól og smiðjur. Veislan er öllum opin og enginn aðganseyrir!
Megináherslan í starfi Háskólalestarinnar er á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. Í áhöfn lestarinnar er starfsfólk og nemendur við Háskóla Íslands sem flestir hverjir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins.
Föstudaginn 20. maí sækja um 125 nemendur í 6.-10. bekk Dalvíkurskóla og Árskógarskóla námskeið á vegum Háskólalestarinnar þar sem fjallað verður m.a. um töfra ljóss og lita, efnafræði, blaða- og fréttamennsku, forritun með skynjurum og föndri, félagsmál og samskipti, sjúkraþjálfun, loftslagsbreytingar, dulkóðun, draugagang, tröll og þjóðsögur og japanska menningarheima.
Auk námskeiðanna fyrir unga fólkið verður sú nýjung í Háskólalestinni að þessu sinni að sérstakar kennarasmiðjur voru í boði fimmtudaginn 19. maí fyrir alla kennara á Norðurlandi. Vísindasmiðja Háskóla Íslands, sem staðsett er í Háskólabíói, hefur undanfarin ár boðið kennurum í fjölbreyttar smiðjur með áherslu á verklega fræðslu og tilraunir. Mikil eftirspurn hefur verið eftir endurmenntun af þessu tagi og nú verða valdar smiðjur í boði fyrir kennara á landsbyggðinni. Stefnt er á að gera þessa þjónustu að föstum lið í Háskólalestinni.
Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land á undanförnum áratug og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Áhöfn lestarinnar hlakkar því sannarlega til að hitta Dalvíkinga og nærsveitarfólk og eiga við það samtal um vísindi og fræði í sinni víðustu mynd, en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar.