Háskólaútgáfan og Hið íslenskra bókmenntafélag saman í Sögu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Garðarsson, framkvæmdastjóri Hins íslenskra bókmenntafélags, undirrituðu á dögunum samning um að félagið, Háskólaútgáfan og Listasafn HÍ deili saman rými á 1. hæð Sögu þar sem Hið íslenska bókmenntafélag er til húsa.
Skrifstofur Háskólaútgáfunnar hafa undanfarin ár verið í kjallara Aðalbyggingar en með undirritun samningsins er gert ráð fyrir að þær verði færðar í Sögu. Samningurinn kveður á um skiptingu rýmisins milli aðilanna en jafnframt er gert ráð fyrir sameiginlegu rými með funda- og vinnuaðstöðu. Þá er stefnt að því Háskólaútgáfan og Hið íslenska bókmenntafélag hafi sameiginlegan starfsmann í móttöku. Rými Listasafns HÍ á sama stað verður nýtt til sýningar á verkum safnsins.
Hið íslenska bókmenntafélag, sem er elsta félag og bókaforlag landsins með yfir 200 ára sögu, stendur fyrir umfangsmikilli bóka- og tímaritaútgáfu sem m.a. tengist fræðum og vísindum. Hið saman má segja um Háskólaútgáfuna, sem sérhæfir sig í útgáfu bæði ritrýndra og óritrýndra fræðibóka og bóka tengdum starfsemi Háskóla Íslands. Því er óhætt að segja að starfsemin falli vel hvor að annarri.