Heimsmeistari í bekkpressu í Háskóla Íslands
Innan Háskóla Íslands er að finna fjölmargt afreksfólk í hópi bæði nemenda og kennara. Afrekin eru ekki aðeins á sviði náms og rannsókna því þau ná líka út fyrir skólann. Þannig háttar til dæmis með Matthildi Óskarsdóttur, BS-nema á öðru ári í sjúkraþjálfun, en hún gerði sér lítið fyrir og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í bekkpressu í sínum flokki fyrr í haust. Matthildur ræddi við okkur um afrek sín á lyftingavellinum og námið en segja má að kraftlyftingarnar hafi leitt hana í sjúkraþjálfun.
„Þegar ég var 13 ára þá sneri ég ökklann frekar illa í fimleikum. Þá kynntist ég fyrst sjúkraþjálfarafaginu því ég var þá fastagestur hjá sjúkraþjálfurum sem reyndu að laga á mér ökklann. Þegar ég var svo búin að vera í þessu veseni í ár tók ég þá ákvörðun að hætta í fimleikum og fá mér bara kort í ræktinni og reyna vera dugleg þar. Þá var ég 14 ára gömul og vissi bókstaflega ekkert hvað ég átti að gera í ræktinni,“ segir Matthildur um aðdraganda þess að hún fór að stunda lyftingar.
Á þessum tíma þorði hún alls ekki að stíga fæti inn í lyftingasalinn en ákvað þó á endanum að slást í för með móður sinni sem var þá að æfa hjá einka- og kraftlyftingaþjálfaranum Ingimundi Björgvinssyni. „Þá var eiginlega ekki aftur snúið og hálfu ári seinna var ég komin á mitt fyrsta mót og setti þar 14 íslandsmet. Ári seinna var ég svo komin til útlanda að keppa á Norðurlanda- og heimsmeistaramótum,“ segir Matthildur sem státar samanlagt af yfir 20 verðlaunum frá mótum innan lands og utan og hefur sett 107 Íslandsmet á ferlinum.
„Ha? Er ég orðin heimsmeistari?“
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á tækifæri Matthildar til frekari afreka á lyftingapallinum enda hefur fjölmörgum mótum verið frestað bæði hér heima og erlendis vegna faraldursins. Kærkomið tækifæri til keppni gafst hins vegar í lok október þegar heimsmeistaramót ungmenna í bekkpressu fór fram í Litháen. Þar gerði Matthildur sér lítið fyrir og varð heimsmeistari -84 kg flokki. Sigurlyftan reyndist lítil 117,5 kílógrömm, þyngd sem eflaust fáir í Háskólanum myndu ráða við á bekknum.
En skyldi sigurinn hafa komið henni á óvart í ljósi fyrri afreka? „Já, ég verð að segja að þetta kom mér svakalega á óvart! En það gerði þetta bara svo miklu skemmtilegra. Ég fór bara út með það hugarfar að hafa gaman og fara á fyrsta mótið mitt eftir tveggja ára COVID-pásu – ég fann ekki fyrir vott af stressi,“ segir hún.
Matthildur segir keppnina hafa verið æsispennandi. „Ég byrjaði mótið ekkert sérstaklega vel og gerði fyrstu lyftuna mína, 112,5 kg, ógilda og ákvað að reyna aftur við þá þyngd í annarri tilraun. Þá gekk það upp og ég þyngdi í 117,5 kg og keppinautur minn gerði slíkt hið sama. Ég var aðeins þyngri en keppinauturinn og lyfti á undan honum þannig ég þurfti að skila mínu og vonast til að keppinauturinn myndi gera sína lyftu ógilda eða ekki ná henni,“ segir Matthildur en reglurnar eru þannig að ef tveir efstu keppendur lyfta sömu þyngd vinnur sá sem er léttari.
Matthildur skilaði sinnu lyftu vel. „Þetta var hins vegar of þungt fyrir keppinautinn þennan daginn og þá rann það upp fyrir mér: „Ha? Er ég orðin heimsmeistari?““ segir Matthildur um þesssa ógleymanlegu stund.
„Ég hef verið svo lengi í þessu sporti, í gegnum seinasta árið í grunnskóla, allan menntaskóla og svo núna með háskólanámi, að ég þekki voða lítið annað en að fara bara beint eftir skóla á æfingar. Þetta er líka einstaklingíþrótt og ég er rosalega heppin að geta ráðið hvenær á daginn ég æfi. En ég reyni að hafa rútínu á þessu, æfa alltaf sömu daga á sama tíma,“ segir Matthildur Óskarsdóttir sjúkraþjálfunarnemi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Gengur vel að samræma krefjandi nám og íþróttina
Kraftlyftingarnar hafa ekki aðeins verið áhrifavaldur í lífi hennar utan skóla heldur einnig þegar kemur að háskólanámi. „Eftir tvö ár í sportinu fór ég að finna aftur fyrir ökklanum og flakkaði þá á milli sjúkraþjálfara og lækna til að reyna komast að því hvað væri að. Loksins fann læknir hvert vandamálið var. Aðgerð var eina lausnin þannig við tók langt endurhæfingaferli hjá sjúkraþjálfara. Þá kom svolítið kveikjan að því að þetta gæti verið skemmtilegt starf, að hjálpa fólki að ná sér eftir meiðsl eða slys og svo margt fleira sem ég hef komist að í gegnum tíðina að er falið í starfi sjúkraþjálfara,“ segir Matthildur sem er eins og fyrr segir á öðru ári í sjúkraþjálfun.
Það krefst gríðarlegs aga og vinnu að vera í fremstu röð í sinni íþrótt en Matthildur æfir alla jafna tvo og hálfan tíma 4 sinnum í viku samhliða afar krefjandi námi í sjúkraþjálfun. En hvernig skyldi ganga að sinna náminu samhliða æfingum og keppni? „Ég hef verið svo lengi í þessu sporti, í gegnum seinasta árið í grunnskóla, allan menntaskóla og svo núna með háskólanámi, að ég þekki voða lítið annað en að fara bara beint eftir skóla á æfingar. Þetta er líka einstaklingíþrótt og ég er rosalega heppin að geta ráðið hvenær á daginn ég æfi. En ég reyni að hafa rútínu á þessu, æfa alltaf sömu daga á sama tíma. Flestir skólar hafa verið frekar liðlegir í að gefa leyfi í tengslum við þátttöku í mótum en versta er að stærstu mótin eru mjög oft á sama tíma og prófatímabil í skólum. Stundum hef ég því þurft að velja milli skólans og móts og þá hef ég valið skólann,“ segir Matthildur sem jafnframt gengur á fjöll og fer allra sinna ferða á hjóli.
Evrópu- og heimsmeistaramót á dagskrá á næsta ári
Aðspurð hvort sjúkraþjálfunarnámið nýtist á einhvern hátt í kraftlyftingunum segist Matthildur komin það stutt á veg í náminu að það gagnist henni ekki mikið „en ég er þó komin með meiri þekkingu á líkamanum og skil frekar af hverju tiltekin æfing ætti að gagnast mér meira en önnur. Ég líka orðin aðeins skynsamari hvað varðar meiðsl, æfi frekar léttar og virði mín mörk í staðinn fyrir að æfa í gegnum sársaukann og harka af mér.“
Eins og áður var getið hefur kórónuveiran haft töluverð áhrif á þátttöku Matthildar í mótum undanfarin misseri. „Næsta ár verður mitt seinasta í ungmennaflokki áður en alvaran í fullorðinsflokki tekur við og er ég mjög spennt fyrir því,“ segir hún aðspurð um glímuna við stálið í framtíðinni. „Næstu mót á dagskrá eru Reykjavíkurleikarnir í janúar, heimsmeistaramótið í bekkpressu í maí og Evrópumótið í bekkpressu í ágúst. Mitt markmið er aðalega að hafa gaman að íþróttinni, ferðalaginu sem því fylgir og njóta,“ segir hún.
En hvað með sjúkraþjálfunina, hvar skyldi hún sjá sig fyrir sér að loknu náminu? „Núna langar mig að vinna eitthvað tengt forvörnum og fræðslu eða með íþróttafólki en það má alveg gera ráð fyrir því að það munir breytast í gegnum námið,“ segir heimsmeistarinn Matthildur að lokum.