Skip to main content
7. febrúar 2023

Helga og Pétur hljóta kennsluverðlaun Heilbrigðisvísindasviðs

Helga og Pétur hljóta kennsluverðlaun Heilbrigðisvísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kennsluverðlaun Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands voru afhent á dögunum fyrir lofsvert framlag til kennslumála á sviðinu. Verðlaunin að þessu sinni komu í hlut, Helgu Helgadóttur lektors í Lyfjafræðideild og Péturs Henrys Petersen prófessors í Læknadeild. Það var Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, sem afhenti þeim Helgu og Pétri viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf.

Helga Helgadóttir var sá kennari sem skoraði hæst í kennslukönnun á vorönn 2022 í Lyfjafræðideild og fékk fyrir vikið viðurkenningu frá deildinni. Meðal umsagna sem féllu um störf Helgu í kennslukönnuninni voru: 

„Ótrúlega góður leiðbeinandi og rosalega hjálpsöm.“

„Námskeiðið mjög vel skipulagt og ótrúlega skemmtilegt að fá að gera allt sjálfur, lærði miklu meira af því. Annars er Helga mjög góður kennari og alltaf til í að hjálpa.“

„Helga var alltaf tilbúin að aðstoða okkur þegar eitthvað kom uppá og var mjög auðvelt að ná sambandi við hana. Hún er yndislegur kennari og var virkilega ánægjulegt að hafa hana sem leiðbeinanda.“

Helga hefur sótt ráðstefnu um kennslu í lyfjafræði í Evrópu (EAFP) og þá var hún með erindi á ráðstefnu hjá Kennsluakademíu HÍ síðastliðið vor. Helga hefur meðal annars kynnt sér svokallaða Team based learning kennsluaðferð sem var tekin í notkun í Lyfjafræðideild haustið 2022.

Pétur Henrý Petersen hefur tekið þátt í uppbyggingu og þróun PBL kennslu (Problem Based Learning) í Læknadeild. Hann hefur m.a. unnið að því að tengja PBL betur við grunngreinarnar og almenna þætti í þjálfun læknanema. PBL kennslan er mjög nemendamiðuð og mikil ánægja ríkir með hana. 

Pétur Henry hefur einnig tekið upp hópvinnu fyrirkomulag TBL (Team Based Learning) í námskeiðum sínum sem virkja nemendur til náms og þá hefur hann verið mjög hjálplegur við aðra kennara sem hafa áhuga á þessu námsfyrirkomulagi. Læknanemar hafa alltaf mikinn áhuga á klínískum tengingum, en oft er erfitt að koma á móts við það í grunnnáminu. Pétur Henrý hefur hins vegar nýtt sér þennan áhuga í verkefnavinnu sem er til fyrirmyndar. 

Auk þessa hefur Pétur sótt mörg námskeið um kennslumál, bæði innan HVS og hjá Kennslumiðstöð HÍ. Hann leitast við að nýta sér þessa þekkingu til að bæta kennslu sína á ýmsan hátt.
 

Helga Helgadóttir lektor í Lyfjafræðideild og Pétur Henry Petersen prófessor í Læknadeild