Skip to main content
7. júlí 2023

Helstu neikvæðu smitáhrif Íslands tengd neyslu og innflutningi 

Helstu neikvæðu smitáhrif Íslands tengd neyslu og innflutningi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fræðafólk við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands skrifuðu kafla í nýja skýrslu um stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á Íslandi sem íslensk stjórnvöld hafa skilað inn til Sameinuðu þjóðanna. Kaflinn byggir á úttekt stofnunarinnar sem sýnir m.a. að svokölluð smitáhrif Íslands á önnur lönd í tengslum við heimsmarkmiðin eru talsvert neikvæð, en áhrifin tengjast m.a. mikilli neyslu og innflutningi auk þess sem hringrásarhagkerfið hér á landi er enn óþroskað. 

Skýrslan verður kynnt á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, High Level Political Forum on Sustainable Development, í New York þann 18. júlí næstkomandi. Í skýrslunni, sem er nú unnin í annað sinn, er fjallað um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi. HÍ26, stefna Háskóla Íslands, skuldbindingar skólans um að stuðla að sjálfbærri þróun í starfi og útgáfa fyrstu Sjálfbærniskýrslu Háskóla Íslands sem út kom á seinasta ári eru þar sérstaklega nefnd á nafn. Í skýrslunni er einnig að finna umfjöllun um alþjóðleg smitáhrif (e. spillover effects) Íslands sem unnin var af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, en stofnunin framkvæmdi úttekt um smitáhrif Íslands að beiðni forsætisráðuneytisins fyrr á árinu. Á ráðherrafundinum í New York mun Ísland sérstaklega beina sjónum að alþjóðlegum smitáhrifum með hliðarviðburði sem haldinn verður 11. júlí n.k. kl. 14:00 á íslenskum tíma. Viðburðurinn verður aðgengilegur í streymi hér: https://www.government.is/topics/sustainable-iceland/side-event-on-spillover-effects/ 

Með smitáhrifum er átt við hvernig aðgerðir innan hvers ríkis hafa neikvæð eða jákvæð áhrif á getu annarra ríkja til að ná heimsmarkmiðunum. Erfitt getur reynst að meta smitáhrif ríkja en sá alþjóðlegi mælikvarði sem mest er notaður við mat á smitáhrifum heimsmarkmiðanna flokkar þau í eftirfarandi þrjár víddir:

  1. Umhverfis- og félagsleg áhrif alþjóðaviðskipta,
  2. Áhrif á efnahag og fjármál annarra ríkja og  
  3. Friðargæsla og öryggi. 

Til að meta smitáhrifin er afar mikilvægt að afla gagna og nota til þess viðurkenndar mæliaðferðir en vegna skorts á gögnum hefur hingað til ekki reynst mögulegt að meta smitáhrif ríkja á alþjóðavísu að fullu. 

Ísland með einna neikvæðust smitáhrif 

Þrátt fyrir að efnamestu ríkjum heims, norrænu ríkjunum þar á meðal, gangi almennt vel að innleiða heimsmarkmiðin heima fyrir þá koma þau illa út þegar kemur að neikvæðum smitáhrifum á önnur ríki eða svæði. Ísland er til að mynda í 158. sæti þeirra 163 landa sem smitáhrif hafa verið metin fyrir og í neðsta sæti af norrænu ríkjunum. Ekki er því nóg fyrir ríki að huga einungis að innleiðingu heimsmarkmiðanna innanlands heldur þarf einnig að vinna markvisst að því að minnka neikvæð smitáhrif svo þau skerði ekki tækifæri annarra ríkja, sér í lagi fátækari ríkja, til að ná heimsmarkmiðunum heima fyrir.  

Flest ríki eru á byrjunarreit þegar kemur að því að gera grein fyrir og kortleggja smitáhrif sín. Hins vegar hefur ýmislegt verið gert sem óbeint vinnur gegn neikvæðum smitáhrifum bæði með laga og markmiðasetningu. Afar mikilvægt er að smitáhrif séu tekin föstum tökum og lagðar séu fram skýrar aðgerðir til að sporna við neikvæðum afleiðingum þeirra. 

Kolefnisspor Íslendinga með því hæsta í heimi 

Niðurstöður úttektar Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands sýna að helstu neikvæðu smitáhrif Íslands eru tengd mikilli neyslu og innflutningi auk þess sem hringrásarhagkerfið er enn óþroskað og benda nýlegar rannsóknir til að kolefnisspor Íslendinga sé með því hæsta í heimi þegar allar innfluttar vörur eru teknar með í reikninginn.  

Leitað var til sérfræðinga sem voru sammála um að mikið og þarft verk lægi fyrir stjórnvöldum til að ná utan um og vinna gegn neikvæðum smitáhrifum Íslands. Helstu verkefnum væri hægt að skipta upp í eftirfarandi atriði:

  1. Skýr framtíðarsýn, markmið og aðgerðaráætlun, 
  2. Betri yfirsýn yfir smitáhrif Íslands,
  3. Efla hringrásarhagkerfi og minnka neyslu og
  4. Hækka framlag Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.   

Innleiða þarf skýra framtíðarsýn og græna hvata 

Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands leggur til að fjórar aðgerðir verði settar í forgang:

  1. Setja fram skýra framtíðarsýn, markmið og fjármagnaða aðgerðaráætlun,
  2. Koma á samráðsvettvangi um gagnaöflun og mælingar í tengslum við smitáhrif Íslands, 
  3. Auka rannsóknir og gagnaöflun og
  4. Innleiða græna hvata, græna skatta og stefnu um græn opinber innkaup. 

Í landrýniskýrslunni ítreka íslensk stjórnvöld að niðurstöður úttektarinnar verði nýttar við mótun landsáætlunar um sjálfbæra þróun, sem áætlað er að verði tilbúin undir lok árs. Eins er reiknað með að íslensk stjórnvöld og Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands haldi áfram samstarfi um rannsóknir á smitáhrifum Íslands. Ljóst er að Háskóli Íslands hefur mikið fram að færa þegar kemur að sjálfbærri þróun og mikilvægi farsæls samstarfs í málaflokknum sannar sig enn og aftur. 

Aðalbygging Háskóla Íslands