HHÍ - 90 ára saga uppbyggingar á háskólasvæðinu
Happdrætti Háskóla Íslands hefur fjármagnað byggingu nær allra húsa Háskóla Íslands, sem eru á þriðja tug talsins, og einnig viðhaldi á þeim í hartnær heila öld. Ekki þarf að fjölyrða hversu vel þetta hefur reynst menntun og framförum íslensku þjóðarinnar. Þá hefur Happdrættið einnig stutt dyggilega við vísinda- og rannsóknarstarf í Háskólanum. Þannig hagar til að Happdrættið fagnar nú þeim merku tímamótum að heil 90 ár eru liðin frá fyrsta útdrættinum sem var þann 10. mars árið 1934. Happdrættið var stofnað með lögum ári fyrr og er því elst allra happdrætta á Íslandi. Starfsemin hófst þó ekki fyrr en í byrjun janúar árið 1934. Nú sjá tölvur um útdráttinn en fyrstu númerin voru dregin úr tveimur stórum tromlum af börnunum Ingigerði Jónsdóttur og Jónasi Guðbrandssyni fyrir fullu húsi í Iðnó. Þessi viðburður markaði upphaf langrar sögu Happdrættis Háskóla Íslands.
„Að núvirði má áætla að Happdrættið hafi skilað um 60 til 70 milljörðum króna til Háskólans en meðal bygginga sem það hefur fjármagnað eru Aðalbyggingin, Íþróttahúsið, Oddi, Lögberg, Læknagarður, Askja og Háskólatorg... og svo mætti áfram telja.“ Þetta segir Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættisins, og bætir því við að Edda, athvarf íslenskunnar, sé nýjasta byggingin á háskólasvæðinu. Ný bygging Heilbrigðisvísindasviðs, sem sé reist í nánum tengslum við Nýja Landspítalann, sé svo næst á dagskrá.
„Happdrættið mun verja að minnsta kosti þrettán milljörðum í bygginguna. Það munar um minna,“ segir Bryndís og brosir.
Frá fyrsta útdrættinum í Happdrætti Háskóla Íslands fyrir um 90 árum.
„Ég stórefa að uppbygging HÍ hefði getað orðið með sama hætti og nú er ef ekki hefði komið til happdrættisfé. Þetta er sjálfstætt fjárstreymi en ekki í samkeppni við önnur verkefni á vegum ríkisins. Ég tek það stundum sem dæmi að ef byggingar Háskólans hefðu verið fjármagnaðar beint úr ríkiskassanum þá væri enn verið að ljúka við efstu hæðina í Lögbergi,“ segir Bryndís og brosir.
HÍ lykillinn að sjálfstæði Íslendinga
Bryndís segir óteljandi þætti koma í hugann þegar hún horfi til þeirra 90 ára sem Happdrættið hefur starfað. „Það er svo margt sem stendur upp úr í þessari 90 ára farsælu sögu Happdrættisins. Fyrst og fremst er það þó afraksturinn sem er uppbygging Háskóla Íslands og áhrifin sem hann hefur haft á íslenskt samfélag. Vígsla Aðalbyggingar Háskólans 17. júní árið 1940 markaði mikil tímamót í sögu þjóðarinnar því þá var fyrsta byggingin undir starfsemi Háskólans risin. Stúdentar þurftu ekki lengur að deila rými með þingmönnum í Alþingishúsinu við Austurvöll, með tilheyrandi þrengslum, eins og þeir höfðu gert þrjá áratugina þar á undan. Það áhugaverða er líka að þegar Aðalbyggingin var vígð átti hún að rúma starfsemi skólans næstu hundrað árin eða svo en hún var fljót að sprengja starfsemina utan af sér enda urðu miklar samfélagslegar breytingar á þessum tíma sem kölluðu á að vel menntað fólk til að byggja upp samfélagið. En svo þarf ekki annað en að horfa yfir háskólasvæðið og sjá byggingarnar sem hafa risið þar og allt það blómlega starf sem fram fer fram í þeim og á öllu háskólasvæðinu. Háskólinn og samfélagið sem skapast hefur í kringum hann hefur leikið eitt af lykilhlutverkunum í sjálfstæði okkar litlu þjóðar og skapað hér aukin lífsgæði og velsæld.“
Undirstaða velferðar Íslendinga fólgin í Háskólanum
Bryndís hefur starfað hjá Happdrættinu síðan 2010 sem henni þykir dágóður tími en segir að þetta sé bara svo skemmtilegt og jafnframt krefjandi starf að hún horfi á næstu ár með eftirvæntingu. Bryndís er stúdent frá Verzló og hefur tvær viðskiptagráður í farteskinu, báðar frá HÍ, cand.oecon. og MS.
„Mér þykir afskaplega afar vænt um Háskóla Íslands og eftir að ég byrjaði hjá Happdrættinu hefur skilningur minn á mikilvægi HÍ fyrir land og þjóð aukist. Ég var hér sjálf í námi, fyrst strax eftir stúdentspróf en tók svo masterinn þegar ég stóð á fimmtugu. Það er stórmerkilegt að háskólinn okkar sé í hópi þeirra bestu í heimi en leiðin þangað er vörðuð því mikla og mikilvæga vísinda- og rannsóknastarfi sem fram fer í HÍ. Mér finnst einstakt hve aðgengi að skólanum er gott og skrásetningargjöldin eru í algjöru lágmarki. Það er líka magnað að Háskólinn geti boðið upp á jafn fjölbreytt og faglegt nám og raun ber vitni, með hundruð námsleiða í grunn- og framhaldsnámi. Það er með ólíkindum, sérstaklega hjá jafn fámennri þjóð og við erum. Öll menntun skiptir máli en Háskóli Íslands skiptir íslensku þjóðina sennilega meira máli en gengur og gerist með háskóla. Háskólinn hefur sem fyrr segir leikið eitt af lykilhlutverkunum í að gera okkur að sjálfstæðri og upplýstri þjóð. Ef Háskólans hefði ekki notið við væri Ísland ekki á þeim stað sem það er í dag.“
Frá vígslu Aðalbyggingar 17. júní 1940 en það er fyrsta háskólabyggingin sem byggð er með stuðningi Happdættis Háskóla Íslands. „Vígsla Aðalbyggingar Háskólans 17. júní árið 1940 markaði mikil tímamót í sögu þjóðarinnar því þá var fyrsta byggingin undir starfsemi Háskólans risin. Stúdentar þurftu ekki lengur að deila rými með þingmönnum í Alþingishúsinu við Austurvöll, með tilheyrandi þrengslum, eins og þeir höfðu gert þrjá áratugina þar á undan,“ segir Bryndís.
Nauðsyn að taka upp spilakort og sporna við ólöglegri starfsemi
Þegar vikið er að gagnrýni á hluta af starfsemi Happdrættisins, sem talsvert hefur verið í fjölmiðlum, segir Bryndís að helstu áskoranir í starfi HHÍ séu um þessar mundir að reyna að koma á heilbrigðum spilamarkaði hérlendis. Annars vegar með innleiðingu á spilakorti en hins vegar með því að fá löggjafann til að bregðast við ólöglegum netspilunarsíðum sem hafa fengið að starfa hér um alltof langt skeið að hennar sögn.
„Spilakortið sem Happdrætti Háskólans vinnur nú að innleiðingu á að norrænni fyrirmynd er skaðaminnkandi aðgangskort þar sem verndun eða velferð viðskiptavina eru höfð að leiðarljósi. Kortið er hugsað sem leið til að draga úr spilavanda og stuðla að heilbrigðri spilahegðun. Slík kort hafa verið innleidd í Noregi og Svíþjóð með góðum árangri og sömu sögu er að segja frá Finnlandi þar sem kortið var nýlega tekið upp. Spilakortin eru raunhæf og árangursrík lausn til að stemma stigu við spilavanda auk þess sem rekjanleiki viðskipta í gegnum spilakort dregur úr hættunni á peningaþvætti,“ segir Bryndís.
Forstjóri Happdrættisins segir að samkvæmt íslenskum lögum hafi einungis ákveðin fyrirtæki eða félög, svokallaðir sérleyfishafar, heimild til að starfrækja happdrættis- eða peningaleiki hér á landi. „Hagnaðinn af rekstri þessara félaga ber lögum samkvæmt að renna til þjóðþrifamála og þar með til samfélagsins alls, svo sem mennta- eða æskulýðsmála og íþróttastarfs. Þetta er aldagamalt form sem sátt hefur ríkt um, bæði hér á landi sem og í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Engu að síður hafa erlendar netspilunarsíður, Coolbet, Betsson, Bet365 svo einhverjar séu nefndar, fengið að starfa hér óáreittar með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.“
Bryndís segir að fyrirtækin sem standi að baki þessum síðum starfi hér á landi án allra lagaheimilda og séu án alls eftirlits. „Það hefur verið gríðarleg ásókn í þessar síður og sem dæmi má nefna er áætlað að Íslendingar hafi eytt um 20 milljörðum íslenskra króna á þessum síðum í fyrra. Fyrirtækin sem standa að baki þeim greiða hvorki skatta né gjöld hér á landi og hagnaðurinn af þeim rennur í vasa einstaklinga, sem margir hverjir eru með lögfesti í skattaskjólum á borð við Möltu og Cayman-eyjar, en ekki til samfélagslegra mikilvægra verkefna hér á landi. Það má gefa sér að íslenska ríkið hafi orðið af tæpum fimm til sjö milljörðum króna í fyrra vegna þessa.“
„Öll lönd sem við berum okkur saman við hafa brugðist við þessu ólöglega netspili með því að lögleiða markaðinn og beina þátttakendum í ábyrgari valkosti. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar algjörlega dregið lappirnar í þeim efnum. Ef við ætlum að koma á heilbrigðum leikjamarkaði og tryggja að ágóðinn af peningaspilum renni til þjóðþrifamála þurfa stjórnvöld að gyrða sig í brók, taka á ólöglegri netspilun og leyfa núverandi sérleyfishöfum að bjóða upp á löglegt netspil - samfélaginu til heilla. Það er lykilatriði. Vandinn hverfur nefnilega ekki þó HHÍ fari eitt og sér í skaðaminnkandi aðgerðir. Hann á í raun bara eftir að aukast ef ekkert verður að gert. Þeir sem spila finna sér annan farveg - færast úr löglegu umhverfi yfir á erlendar ólöglegar netspilunarsíður.“
Bryndís með hundinum Kústi á fjalli.
Mikið að gerast í rótgrónu happdrætti
Þegar Bryndís er spurð að því hvernig það hafi komið til að hún störf fyrir happdrættið svarar hún því til að henni hafi boðist starfið á sínum tíma og var þá sagt að gamla góða Flokkahappdrættið væri á útleið því áhuginn á því væri á beinni niðurleið.
„Verkefnið væri að koma happdrættisvörunum á Netið, þar liggi framtíð Happdrættisins. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Það er svo gaman og gefandi að vinna í dýnamísku umhverfi og ég get fullyrt að það hefur aldrei verið jafnmikið að gerast á happdrættismarkaðnum allra síðustu misseri. Hann er á fleygiferð inn í framtíðina.“
Bryndís segir að mikið hafi unnist í mikilvægum umbótaverkefnum innanhúss hjá HHÍ og þar sé allt á fullri ferð. „Það er í raun aldrei dauð stund. Innleiðing á spilakortinu er eitt af mikilvægustu og brýnustu verkefnunum okkar. En það skal alveg viðurkennast að það getur tekið á þolinmæðina þegar maður vinnur í eftirlitsskyldu umhverfi. Margir telja það sjálfsagðan hlut að fyrirtæki hafi sínar vörur og þjónustu aðgengilegar á Netinu því þangað leita neytendur, hvort sem er í leit að afþreyingu eða kaupum á vörum. Við þurfum heimild frá stjórnvöldum til að þróa vörurnar okkar áfram og það leyfi hefur því miður ekki enn fengist.“
Útivistarkona með hundinn Kúst sem er alveg eins og kústur
Þótt Bryndís Hrafnkelsdóttir kunni vel við sig í kraftmiklu umhverfi starfsins er hún stundum bara slök heima fyrir. Þá hugsar hún gjarnan um eina barnabarnið sitt sem er eins árs og hefur breytt öllu á heimilinu. En Bryndís er líka mikil útivistarkona og hundaeigandi – eða kannski má orða þetta á hinn veginn. Hundurinn Kústur á hana með húð og hári. Kústur er eins og nafnið bendir til líkastur risakústi - eða eins og sumir segja í Fossvoginum, þar sem Kústur viðrar manneskjuna sína mjög reglulega - moppu í bílaþvottastöð.
„Já, hundurinn minn hann Kústur, dregur mig út í göngu á hverjum degi og sýnir enga miskunn,“ segir Bryndís og skellihlær. Annars þarf Bryndís ekki Kústinn til að ganga því hún er sólgin í göngur og nýtir hvert tækifæri til að hreyfa sig á fjöllum.
„Hárrétt, mitt helsta áhugamál þessi misserin eru fjallgöngur og ég er í tveimur gönguklúbbum. Ég geng alla miðvikudaga eftir vinnu með góðum hópi og einn dag í mánuði fer ég í lengri ferðir og stefni á Kilimanjaro í haust.“