Skip to main content
27. mars 2023

HÍ-AWE-konur leggja land undir fót 

HÍ-AWE-konur leggja land undir fót  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þátttakendur í HÍ-AWE frumkvöðlahraðlinum lögðu land undir fót og tóku þátt í staðlotu á Bifröst í lok síðustu viku. Þar fengu þær fjölbreytta fræðslu sem snýr að þróun viðskiptahugmynda þeirra og jafnframt gafst tækifæri til þess að treysta tengslanetið og bera saman bækur sínar.

HÍ-AWE hraðalinn er sérstaklega ætlaður konum sem eru að stíga sín fyrstu skref í að móta sínar viðskiptahugmyndir og stofna fyrirtæki. Markmið hans er að styðja konur á þeirri vegferð og auka hlut kvenna almennt innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Frumkvöðlahraðlinum var ýtt af stað í þriðja sinn í síðasta mánuði og nú taka aðstandendur 23 viðskiptahugmynda í þátt í honum. Hraðallinn fer að mestu leyti fram á netinu enda eru þátttakendur alls staðar af landinu, á breiðum aldri og af ólíkum uppruna en mikil áhersla er lögð á fjölbreytni við val á þátttakendum.  
 
Þó er boðið upp á nokkrar staðlotur og um tuttugu frumkvöðlar víðs vegar af landinu tóku þátt í lotunni sem fór nú fram á Bifröst. Ferðin hófst á heimsókn í Fab lab þar sem konur fengu kynningu á þeim tækifærum sem þær geta mögulega nýtt sér þar til að þróa viðskiptahugmynd sína og koma henni betur á framfæri.

Þegar komið var á Bifröst tók Margrét Jónsdóttir Narðvík, rektor Háskólans á Bifröst, á móti hópnum. Eftir það leiddi Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og mentor í hraðlinum, hópinn með hagnýtum ráðum og æfingum en tilgangur ferðarinnar var að æfa framkomu og kynningar á viðskiptahugmyndum. 
 
Nýsköpunarhraðallinn er haldinn undir merkjum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna.  AWE-verkefnið er í boði í yfir 80 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda en Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í því.  
 
Hér að neðan má sjá myndir frá staðlotunni á Bifröst  .

Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst
Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst
Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst
Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst
Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst
Þátttakendur í staðlotunni á Bifröst