HÍ hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í fimmta sinn
Háskóli Íslands er meðal þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), í ár en hún var afhent í Hátíðasal Aðalbyggingar skólans fyrir helgi. Þetta er í fimmta sinn sem skólinn hlýtur viðurkenninguna.
Markmiðið með verkefninu er að jafna hlut kynjanna í stjórnun fyrirtækja og stofnana á Íslandi með það fyrir augum að hlutfallið á milli kynja verði a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja og stofnana. Jafnframt er verkefninu m.a. ætlað að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
Háskóli Íslands var meðal 22 opinberra aðila sem fengu viðurkenninguna að þessu sinni en þar að auki tóku 93 fyrirtæki og 15 sveitarfélög við henni. Samanlagt eru þetta 130 aðilar sem er metfjöldi viðurkenningarhafa.
Fram kemur í tilkynningu frá FKA vegna verðlaunanna að Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar, hafi opnað hátíðina og hrósað stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Þá flutti Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, ávarp og fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt.
Jón Atli Benediktsson rektor tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans en skólinn hefur tekið þátt í verkefninu frá árinu 2020. Með því skuldbindur skólinn sig til að vinna stöðugt að því að jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnendastöðum.
Sem hluta af viðurkenningunni fengu viðurkenningarhafar tré til að gróðursetja í Jafnfréttislundi FKA í Vífilsstaðahlíð en tilgangurinn með þeirri gjöf var að hvetja fyrirtæki og stofanir til að sýna í verki bæði vilja til að vinna í þágu loftslagsmála og jafnréttis. Ásta Dís Óladóttir mætti fyrir hönd Háskóla Íslands í lundinn í blíðunni á föstudag og gróðursetti tréð. Segja má að stjórnun fyrirtækja og stofnana svipi um margt til garð- og skógræktar. Í báðum tilvikum þarf að huga vel að jarðvegi og tryggja rétta samsetningu einstaklinga um leið og huga að hvoru tveggja með reglulegu millibili þannig að það vaxi og dafni.
Að hreyfiaflsverkefninu Jafnréttisvoginni standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.