HÍ og LbHÍ bjóða saman upp á meistaranám í sjálfbærum landbúnaði og byggðaþróun

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskóli Íslands hafa tekið höndum saman með stuðningi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og bjóða frá og með næsta hausti upp á meistaranám í sjálfbærum landbúnaði og byggðaþróun. Námið er ætlað bæði innlendum og erlendum nemendum og verður kennt á ensku.
Öflugur landbúnaður, í sátt við umhverfi og samfélag, er ein af grunnstoðum þróunar íslensks samfélags til framtíðar, ekki síst með tilliti til fæðuöryggis og byggðaþróunar. Þekking þar sem grundvallaratriði landbúnaðarvísinda er samtvinnuð við umhverfisvísindi, nýsköpun, félagsvísindi og þróun byggðar er því mikilvæg fyrir samfélagið.
Hið nýja meistaranám snertir málefni eins og landbúnaðarkerfi og framleiðslu, fæðukerfi og fæðuöryggi, stefnu og stuðning stjórnvalda, þar með talið stjórnkerfi og stjórntæki hins opinbera, hagsæld og hringrásarhagkerfi, loftslagsbreytingar, byggðaþróun ásamt nýsköpun í dreifbýli og sjálfbærri landnýtingu. Námið undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf, bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífi.
Nemendur munu getað valið um það að innrita sig annars vegar í þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og tekið þar kjörsviðið „Sjálfbær landbúnaður og byggðaþróun“ og hins vegar í meistaranám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands með áherslusviðið „Sjálfbær landbúnaður og byggðaþróun“. Með þessu samstarfi er byggt á styrkleikum beggja háskóla en kennarar úr báðum skólum koma að kennslu og leiðsögn í náminu.
Námið er sett á laggirnar í kjölfar víðtæks samráðs við hagaðila bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífi. Í verkefnisstjórn um undirbúning námsins eru Brynhildur Davíðsdóttir og Jón Geir Pétursson, prófessorar við Háskóla Íslands, Jóhanna Gísladóttir og Jón Hjalti Eiríksson, lektorar við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri í matvælaráðuneytinu.