HÍ og Ríkiskaup vinna saman að nýsköpun hins opinbera
Ætlunin er að virkja nemendur, starfsfólk og sprotafyrirtæki Háskóla Íslands enn frekar í að leysa áskoranir í rekstri hins opinbera með nýsköpun samkvæmt nýjum samstarfssamningi sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa, undirrituðu í Háskóla Íslands nýverið.
Bæði Háskóli Íslands og Ríkiskaup hafa unnið ötullega að því að auka þátt nýsköpunar í samfélaginu, hvor stofnun með sínum hætti, og á grundvelli þess var ákveðið að efla samstarf stofnananna um nýsköpun og þróun hjá hinu opinbera. Það er í takt við áætlanir stjórnvalda sem leggja mikla áherslu á að nýta nýsköpun í auknum mæli til að leysa verkefni hins opinbera á betri og hagkvæmari hátt.
Háskóli Íslands hefur í samstarfi við atvinnulíf á síðustu árum byggt upp bæði aðstöðu og stuðningumhverfi fyrir frumkvöðla með það fyrir augum að skapa meiri verðmæti og velsæld fyrir þjóðina og þá hafa Ríkiskaup verið í forystuhlutverki við að þróa og efla opinbera nýsköpun í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Samkvæmt samningnum munu Háskólinn og Ríkiskaup vinna saman að því að tengja nemendur og starfsfólk við opinbera aðila í gegnum ýmis verkefni á vegum Ríkiskaupa, eins og Nýsköpunarmót og Nýsköpunardag hins opinbera, og þá er stefnt að því að Háskólinn verði í auknum mæli vettvangur viðburða á sviði opinberrar nýsköpunar.
Til viðbótar verður m.a. þeim sprotafyrirtækjum sem tengjast HÍ boðið að taka þátt í verkefnum Ríkiskaupa eftir því sem efni standa til og þá verður leitast við að tengja hinar ýmsu deildir, stofnanir og þjónustueiningar skólans ásamt Vísindagörðum HÍ við nýsköpunarverkefni Ríkiskaupa. Er starfsfólk hvatt til að fylgjast með þeim viðburðum og tækifærum sem kynnt verða á næstu misserum.