Skip to main content
2. febrúar 2023

HÍ opnar gagnagrunn um brautskráða doktora

HÍ opnar gagnagrunn um brautskráða doktora - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný vefsíða á vegum Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur verið opnuð en hún hefur að geyma gagnagrunn um brautskráða doktora frá skólanum. Vefsíðan er bæði á íslensku og ensku. Þar er hægt að leita svara við mikilvægum spurningum sem snúa að því hvaða störf brautskráðir doktorar við Háskóla Íslands stunda að námi loknu og hvar í heiminum þeir starfa. Gagnagrunnurinn inniheldur opinberar upplýsingar um rannsóknir og störf rúmlega sjö hundruð doktorsnema sem brautskráðst hafa frá árinu 2010 og uppfyllir allar kröfur háskólans um persónuvernd.

Gagnagrunnurinn veitir gagnlegar upplýsingar fyrir núverandi doktorsnema sem og brautskráða doktora sem vilja styrkja tengslanet sitt og kanna starfsmöguleika að námi loknu. Aðrir sem gætu haft gagn af gagnagrunninum eru leiðbeinendur doktorsnema, starfsmenn framhaldsnáms við HÍ, starfsráðgjafar, vinnumarkaðssérfræðingar og þau sem vinna við nýsköpun. Síðast en ekki síst mun gagnagrunnurinn gagnast fyrirtækjum og stofnunum sem leita að framúrskarandi starfsfólki til starfa innan vaxandi íslensks og alþjóðlegs þekkingarhagkerfis. 

Gagnagrunninum er skipt eftir fræðasviðum Háskóla Íslands og er hægt að leita eftir nafni, rannsóknargrein, deild og útskriftarári. Þegar svið er valið birtast allir doktorsnemar frá árunum 2010-2022 en á næstu dögum munu brautskráðir árið 2023 bætast við. Gagnagrunnurinn birtir almennar aðgengilegar upplýsingar og uppfyllir kröfur Háskóla Íslands um persónuvernd og gagnasöfnun og liggur fyrir samþykki allra sem birtast á síðunni.

Neðst á síðum fræðasviðanna er mögulegt að óska eftir þátttöku eða senda inn uppfærðar upplýsingar. Auk þess er hægt að hafa samband í gegnum tölvupóstfang sem finna á á síðunni. Þau sem brautskrást á þessu ári munu geta gefið samþykki fyrir birtingu upplýsinga á vefnum í Doktorsnámunni svokölluðu á Uglu og eru boðin sérstaklega velkomin í þennan glæsilega hóp doktora.

Gagnagrunnurinn var fjármagnaður með styrk frá Vinnumálastofnun og er samvinnuverkefni Miðstöðvar framhaldsnáms, Félagsvísindastofnunar og Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands. Eyrún Lóa Eiríksdóttir, verkefnisstjóri og doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, vann við gagnasöfnun og hannaði gagnagrunninn og vefsíðuna undir leiðsögn Tobys Eriks Wikström, verkefnisstjóra við Miðstöð framhaldsnáms og sérfræðings við Hugvísindastofnun. Vísinda- og nýsköpunarsvið fær sérstakar þakkir fyrir veittan stuðning við verkefnið.
 

Frá Hátíð brautskráðra doktora 2022.