Hjálpsemi er drifkrafturinn
Sigurður Vopni Vatnsdal er fæddur árið 1996 og var í hópi 78 manns sem útskrifuðust á dögunum sem löggildir fasteigna- og skipasalar frá Endurmenntun HÍ. Hann stundaði námið samhliða starfi sem auglýsingasölumaður hjá Stöð 2 og Vísi. Áður vann Vopni, með sölumennsku, á leikskóla og í grunnskóla en tók u-beygju fyrir tveimur árum og skellti sér í námið sem hann segir hafa komið sér skemmtilega á óvart.
Á æskuslóðum á Vopnafirði var hann kallaður Siggi en Vopni síðan hann flutti á höfuðborgarsvæðið fyrir um sjö árum. „Nafnið er í ættinni, bæði sem millinafn og ættarnafn. Hjá mér varð það millinafn og Vatnsdal ættarnafn. Ég segi stundum að foreldrar mínir hafi deilt um hvort yrði valið, Vopni eða Vatnsdal og þau endað á því að hafa bara bæði,“ segir hann og hlær.
Eftir að Vopni lauk stúdentsprófi árið 2016 og fór í kennaranám í HÍ starfaði hann í Austurbæjarskóla, var í starfsnámi í Háteigsskóla og deildarstjóri á leikskóla. „Ég er ekkert eðlilega góður í að skipta um bleyjur!“ tekur hann stoltur fram. Samhliða þessu var hann einnig sölumaður hjá fyrirtæki sem heitir Miðlun áður en hann fór til Stöðvar 2 og Vísis þar sem hann hefur verið í um 18 mánuði. „Ég verð áfram hér því maður lærir svo margt í náminu sem nýtist vel í allri sölumennsku. Mér fannst nám til löggildingar fasteigna- og skipasala mjög skemmtilegt og það kom á óvart hvað ég kynntist mörgu fólki á öllum aldri. Mörg þeirra voru í náminu með vinnu. Við höfðum öll ólíkan bakgrunn og komum núna með ferska innsýn inn í störfin okkar og sjáum betur hvaða möguleikar eru í boði. Tengslanetið stækkaði mikið.“
Fasteignasalar þurfa að vita mikið um margt
Spurður um hvað hafi komið mest á óvart í náminu segir Vopni það hafa verið fjölbreytnin og að læra um alls kyns lög og reglur sem gilda í allri sölumennsku. „Ég fór blint út í þetta og sá hvað ýmislegt eins og hjúskaparlög og annað nýtist vel í núverandi starfi. Fasteignasalar þurfa að vita svo mikið um margt. Ég lærði mest þegar ég gerði lokaverkefnið. Það var álitaverkefni sem sett var upp þannig að eitthvað kom upp á milli aðila, til dæmis tengt fasteignum eða jörðum, sem við þurftum að leysa og vísa í lög og reglur.“ Þá fann Vopni að hæfileikar hans með að eiga auðvelt með hópavinnu nýttust vel í náminu en hann var ansi vanur því í kennaranáminu á Menntavísindasviði.
„Í mínum störfum, hvort sem það er kennslan eða sölumennskan, er hjálpsemi drifkrafturinn. Ég hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að koma sér á framfæri sem er mjög skemmtilegt. Og ef ég fer í fasteignasölubransann, þá held ég því áfram. Þar er lægð núna en þessar bólur koma alltaf. Sumir tala um að fasteignasalar keyri verðið upp. Markaðurinn er þannig að margir þurfa húsnæði. Það er margt sem þarf að gera sem hvílir fyrst og fremst á stjórnvöldum. Enginn einn hópur sem stjórnar því frekar en annar. Mitt hlutverk sem sölumaður er að þjónusta og hjálpa, þannig lít ég á það.“
Að endingu spurðum við þennan jákvæða, ljúfa og kraftmikla sölumann hvers vegna hann myndi mæla með náminu sem hann lauk. „Ef fólk hefur áhuga á vinnu sem tengd er sölu þá er þetta nám algjörlega hannað sem undirbúningur fyrir það. Við lærum svo margt vítt og breitt. Ýmis orð sem maður hafði heyrt en þekkti ekki fyrr en nú. Það er ekkert annað sölutækninám á Íslandi þar sem farið er djúpt í lögin. Svo er gott að fá löggildinguna til að hafa réttindin ef mann langar í þann bransa,“ segir Vopni.
Allar nánari upplýsingar um nám til löggildingar fasteigna- og skipasala eru hér.