Hlaðvarp um fjölbreytileika íslenskunnar
Dulmál er nýtt hlaðvarp um íslensku í umsjón þriggja nemenda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í hlaðvarpinu er fjallað um ýmsar hliðar tungumálsins, fjölbreytta eiginleika þess og íslenskar bókmenntir á þann hátt sem gæti vakið áhuga ungs fólks á íslensku og íslenskunámi á háskólastigi og þannig styrkt framtíð tungumálsins og íslenskra fræða.
Þrír þættir hlaðvarpsins hafa verið birtir og í þeim er fjallað um slangur, bókmenntir og máltöku barna og áhrif stafrænnar tækni á hana. Viðmælendur þáttanna eru Lilja Björk Stefánsdóttir málfræðingur, Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í bókmenntum, og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði.
Umsjónarmenn Dulmáls eru Ella María Georgsdóttir, Guðrún Lilja Friðjónsdóttir og Júlía Karín Kjartansdóttir. Þær hlutu styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur sem hefur það meginmarkmið að efla íslenska tungu með styrkjum til verkefna á sviði íslenskra fræða. Guðrún Lilja segir að þær hafi orðið varar við það á netinu og allt í kringum sig að það væri þörf á jákvæðri og uppbyggilegri umræðu um tungumálið. „Þetta hlaðvarp er okkar tilraun til að bæta úr því og við teljum líka að þessir þættir geti nýst ungu fólki sem er mögulega með ákveðna hugmynd um íslenskunám eða er að íhuga nám á háskólastigi,“ segir Guðrún.
Hægt er að hlusta á hlaðvarpið á Spotify og öðrum hlaðvarpsveitum.