Skip to main content
9. júní 2023

Hljóta styrki til sumarnáms í Caltech

Hljóta styrki til sumarnáms í Caltech - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands hljóta í sumar styrki til að vinna tíu vikna rannsóknaverkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu. Nemendurnir sem halda nú til Caltech eru þau Agla Þórarinsdóttir, nemi í eðlisfræði, Berglind Bjarnadóttir, nemi í lífefna- og sameindalíffræði og Þorfinnur Ari Herrmann Baldvinsson, nemi í efnaverkfræði.

Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship sem snúast um rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Á fjórða tug nemenda við HÍ hefur unnið sumarverkefni við Caltech frá því að samningur var undirritaður og að sama skapi hefur fjöldi Caltech nemenda unnið SURF verkefni hér við Háskóla Íslands undir handleiðslu kennara skólans. Háskóli Íslands og Caltech hafa haft með sér skipulegt samstarf á sviði kennslu og rannsókna frá árinu 2008. 

Caltech-háskóli er einn allra fremsti rannsóknaháskóli heims og hefur margsinnis raðast í eitt af efstu sætunum á matslistum yfir bestu háskóla á heimsvísu. 

Agla, Berglind og Þorfinnur hljóta styrk frá HÍ að upphæð 7.100 dollara en styrkirnir eru kenndir við hjónin Kiyo og Eiko Tomiyasu. Kiyo Tomiyasu var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfssamningi milli Caltech og Háskóla Íslands árið 2008. Kiyo og kona hans, Eiko, reyndust íslenskum nemendum við Caltech einstaklega vel og veitir Háskóli Íslands því styrkina í þeirra nafni. 

Þess má geta að von er á þremur nemendum frá Caltech til Háskóla Íslands þar sem þeir munu stunda rannsóknir í sumar.
 

Þau Agla Þórarinsdóttir, Berglind Bjarnadóttir og Þorfinnur Ari Herrmann Baldvinsson tóku við styrkjunum á rektorsskrifstofu á dögunum en með þeim á myndinni eru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Hafliði Sævarsson, verkefnisstjóri á Alþjóðasviði.