Hlýtur viðurkenningu japanska utanríkisráðuneytisins
Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands, hlýtur sérstaka viðurkenningu japanska utanríkisráðuneytisins í ár fyrir framlag sitt til eflingar á Japansrannsóknum á Íslandi. Tilkynnt var um þetta á vefsíðu Sendiráðs Japans á Íslandi.
Kristín lauk doktorsprófi í félagsvísindum frá Hitotsubashi-háskóla í Tókýó árið 2006, en doktorsverkefni hennar fjallar um alþjóðavæðingu í japönsku samfélagi eftir seinni heimsstyrjöld. Kristín tók við starfi lektors í japönskum fræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands haustið 2019 og stundar m.a. rannsóknir á samskiptum Íslands og Japans og á stefnu Japans gagnvart Norðurslóðum.
Ryotaro Suzuki, sendiherra Japans á Íslandi, veitir viðurkenninguna við formlega athöfn síðar á árinu.