Hópmeðferðin Sálrækt í boði fyrir stúdenta í vetur
Nemendum við Háskóla Íslands býðst að sækja hópmeðferðina Sálrækt ókeypis í vetur. Umræðum þar er ætlað að hjálpa nemendum að fást við erfiðleika í hversdagslífinu sem geta spannað allt frá málum sem varðar fjölskyldu og skóla til persónulegra mála og samskipta. Veitt er fræðsla og stuðst við viðurkennda hugmyndafræði, hugræna tilfinninga- og atferlismeðferð (e. Rational Emotive Behavior Therapy).
Hópfundir verða haldnir í Huldubergi, sem er stofa í Setbergi, húsi kennslunnar við HÍ. Fundað verður vikulega á fimmtudögum, kl. 14-15.30, og fyrsti fundur á haustönn verður þann 30. september.
Sálfræðiráðgjöf háskólanema hóf að bjóða upp á Sálrækt árið 2018. Leiðbeinandi er dr. Gunnar Hrafn Birgisson, klínískur sálfræðingur.
Áhugasamir sendi póst á hopmedferd@hi.is með nafni og símanúmeri. Athugið að þátttökufjöldi er takmarkaður. Þeir fyrstu sem sækja um komast að fyrstir og af biðlista komast svo aðrir að eftir röð.