Hvað spáir fyrir um hamingju í parsamböndum?
Ein þekktasta kaka sem bökuð er á íslenskum heimilum nefnist því smellna nafni hjónabandssæla. Varla er til sá Íslendingur sem ekki hefur bragðað á þessu einfalda bakkelsi sem á annað borð leggur sér sætabrauð til munns. En þótt þessi kaka rjúki út á sumum heimilum þá er það ekki alveg borðlagt að raunveruleg hjónabandssæla ríki á þessum sömu heimilum.
Þessa dagana er í gangi rannsókn við HÍ sem sækir nafn sitt í þessa landsþekktu köku – málið er samt ekki að meta kökuna sjálfa – hvorki í sögulegu né samfélagslegu ljósi - heldur að kanna nákvæmlega það sem kakan stendur fyrir.
„Rannsóknin snýst um að finna þætti sem spá fyrir um hamingju í parsamböndum,“ segir Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, sem leiðir verkefnið. Áhugi hennar á sviði rannsókna hefur helst legið á sviði barnaverndar, að skoða ofbeldi og vanrækslu barna, áhættuhegðun barna og ofbeldi í parsamböndum. Einnig hefur hún að eigin sögn, rannsakað parsambönd og þar á meðal upplifanir samkynhneigðra af því að uppgötva að eigin kynhneigð passi ekki við viðtekin norm og af því að tengjast öðrum tilfinningaböndum af sama kyni.
Og nú leitar Freydís Jóna að forspárgildum um velferð parsambanda – að uppskriftinni að hjónabandssælunni. Þegar hún víkur að rannsókninni segir hún að það hafi verið mjög áhugavert að skoða hvað einkenni góð parsambönd, þar sem aðilar séu hamingjusamir og líði vel saman. „Ekki síst af því að megin rannsóknarsvið mitt liggur á sviði ofbeldis og vanrækslu í fjölskyldum og áhættuhegðunar og það má segja að þetta sé andstæði endinn á ofbeldi í parsamböndum þar sem óhamingjan er hvað mest, að skoða hvað einkenni parsambönd þar sem hamingjan blómstrar.“
Augljóslega liggur þetta efni á áhugsviði Freydísar Jónu þótt hún horfi þarna til gagnstæðra þátta að sumu leyti en hún hefur oftast gert. „Ég hef verið með umsjón með námskeiði um árabil þar sem farið er inn á kenningar sem stuðst er við í fjölskyldumeðferð og kviknaði hugmyndin út frá því viðfangsefni. Einnig höfum við, ég og meðrannsakandi minn, unnið að verkefni ásamt bandarískum prófessor þar sem við skoðuðum ungt fólk og viðhorf þess til parsambanda og fjölskyldulífs.“
Leitar upplýsinga sem aukið geta hamingju í parsamböndum
En hvernig er svo hægt að komast að því hvað spáir fyrir um hamingjuna? Freydís segir að þátttakendur í rannsókninni hafi svarað fimm spurningalistum sem mæli eftirfarandi:
1) Ánægju í parsambandi (fylgibreyta)
2) Eðli ástarinnar (ástríðu, vináttu og skuldbindingu)
3) Tengslamyndun
4) Aðgreiningu sjálfsins (e. differentiation of self)
5) Virðingu í parsambandinu.
„Auk þess var að finna ýmsar spurningar um heimilisstörf og barnauppeldi og annað er snýr að hversdagslegum raunveruleika í parsamböndum.“
Mjög mörg fýsir vafalítið að sjá niðurstöður úr þessari rannsókn en þótt gögnum hafi verið safnað er enn verið er að vinna í þeim. Til að halda spennunni segir Freydís að fyrstu niðurstaðna sé þó að vænta innan skamms. Og þótt niðurstöður liggi ekki alveg fyrir trúir Freydís því að rannsóknin sjálf geti haft talsverð samfélagsleg áhrif á sama tíma og hún geti breytt ýmsu til betri vegar fyrir einstaklinga og parsambönd.
„Þessi rannsókn getur veitt upplýsingar um það hvað pör geta mögulega gert til að auka hamingju í parsambandi sínu og þar með bætt sambönd sín. Jafnframt hvað einstaklingar geta gert til að rækta parsamband sem þeir fara inn í. Það hefur að sjálfsögðu jákvæð áhrif á samfélagið þar sem maður skyldi ætla að fólk sem sé ánægt í parsamböndum sé ánægðara yfirleitt, sem hefur áhrif á aðra í kringum það,“ segir Freydís Jóna.
Fræðsla er öflugt verkfæri til þess að draga úr fordómum
Það eru ýmis nýmæli í þessari rannsókn – en hugmyndin er að hafa á framhald á henni þar sem fólk í parsamböndum geti svarað spurningum reglulega í appi, svo hægt sé að meta nánar tiltekna þætti sem kunna að hafa áhrif á ánægju í parsamböndum.
„Ef af þeirri framhaldsrannsókn verður, yrði um nýnæmi að ræða, því slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar áður svo við vitum,“ segir Freydís.
„Slík rannsókn og aðrar auka þekkingu okkar og gera okkur kleift að bæta líf okkar í samræmi við nýja þekkingu. Til dæmis er fræðsla öflugt verkfæri til þess að draga úr fordómum og fræðsla byggist á þekkingu sem fæst meðal annars með rannsóknum.“