Skip to main content
4. október 2022

Hvernig stuðla rannsóknir við HÍ að betra samfélagi?

Hvernig stuðla rannsóknir við HÍ að betra samfélagi? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvaða áhrif hafa rannsóknir við Háskóla Íslands á samfélagið og hvert er gildi þeirra? Fengist verður við þessar og fleiri spurningar sem snerta samfélagsleg áhrif rannsókna við skólann á ráðstefnu sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 11. október kl. 13-16. Nýtt vefsvæði helgað samfélagslegum áhrifum vísindafóks HÍ hefur jafnframt verið opnað en þar gefst vísindafólki skólans m.a. tækifæri til að senda inn upplýsingar um samfélagsleg áhrif rannsókna sinna. 

Yfirskrift stefnu Háskóla Íslands er Betri háskóli – betra samfélag og í henni er lögð mikil áhersla á að starf skólans styðji við og hafi áhrif á framþróun samfélagsins með bæði öflugu námi og fjölbreyttri þekkingarsköpun í rannsóknum.

Stutt erindi og hópumræður 

Áhrif rannsókna á samfélag geta verið margvísleg og á ráðstefnunni þann 11. október fjalla innlendir og erlendir sérfræðingar m.a. um það hvaða felst í samfélagslegum áhrifum rannsókna, hvernig virkja má almenning í rannsóknastarfi auk þess sem dæmi verða gefin af samfélagslegum áhrifum rannsókna hér á landi. Jafnframt verður boðið upp á hópumræður á ráðstefnunni en stefnt er að því að halda áfram að vinna með þær hugmyndir sem koma þar fram og þá sérstaklega um samfélagslegt gildi rannsókna innan háskólans.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna á nýjum vef sem helgaður er samfélagslegum áhrifum rannsókna innan HÍ en þar er jafnframt hægt að skrá sig á ráðstefnuna

Hægt að senda inn póstkort um samfélagsleg áhrif

Á vefnum er einnig fjallað um þá þætti sem geta aukið samfélagsleg gildi rannsókna og hvernig rannsóknir almennt hafa áhrif á mismunandi þætti samfélags og umhverfis. Jafnframt má finna á síðunni stuttar frásagnir eða póstkort um það hvernig vísindafólk af öllum fræðasviðum Háskólans leggur sitt af mörkum til samfélagsins með rannsóknum sínum. Vísindafólki skólans gefst þar jafnframt tækifæri til að senda inn stuttan texta/póstkort um það hvernig rannsóknir þess hafa samfélagsleg áhrif.

""