Skip to main content
19. apríl 2023

Ingibjörg Gunnarsdóttir verður aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands

Ingibjörg Gunnarsdóttir verður aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, hefur verið ráðin aðstoðarrektor vísinda við skólann. Hún tekur við starfinu 1. júlí af Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur sem gegnt hefur starfi aðstoðarrektors vísinda undanfarin sjö ár. Guðbjörg Linda snýr aftur í sitt prófessorsstarf í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild og mun leiða að hluta viðamikið rannsóknaverkefni sem stutt er af Horizon Europe og fjallar um notkun gervigreindar í atvinnulífinu, einkum með hliðsjón af stjórnun og mannaráðningum. Átta önnur Evrópulönd taka einnig þátt í rannsókninni.

Ingibjörg lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1997, meistaranámi í næringarfræði frá Háskóla Íslands 1999 og doktorsprófi árið 2003. Hún tók virkan þátt í uppbyggingu Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala samhliða námi og hefur gegnt starfi forstöðumanns stofunnar frá árinu 2013. Hún hefur verið prófessor í næringarfræði frá árinu 2010.

Ingibjörg hefur sinnt fjölbreyttum rannsóknum á sviði næringarfræði í samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknahópa. Hún hefur fyrst og fremst helgað sig rannsóknum á næringarástandi viðkvæmra hópa með megináherslu á barnshafandi konur síðastliðin ár. 

Ingibjörg hefur enn fremur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga fyrir nám og störf, þar á meðal Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2014. Hún er höfundur fjölda alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina og hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðu og miðlun upplýsinga um næringu til almennings. Þá hefur Ingibjörg gegnt fjölda trúnaðarstarfa innan skólans sem utan. Hún var meðal annars fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði á árunum 2018-2022 þar sem hún var varaforseti ráðsins allan tímann.

„Ég er full tilhlökkunar að vinna að nýjum verkefnum í samstarfi við öflugan hóp stjórnenda og starfsmanna Háskóla Íslands,“ segir Ingibjörg.

„Ég þakka Ingibjörgu innilega fyrir að taka þetta mikilvæga starf að sér. Hún hefur afar mikla reynslu bæði innan og utan HÍ sem ótvírætt mun nýtast vel. Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Ingibjörgu inn í forystusveit Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Tveir aðstoðarrektorar starfa við Háskóla Íslands, aðstoðarrektor kennslu og þróunar og aðstoðarrektor vísinda, og eru þeir valdir úr hópi akademískra starfsmanna skólans. Aðstoðarrektorar eru í hlutastarfi, með rannsóknaskyldu, en rektor setur þeim erindisbréf þar sem umboð þeirra er skilgreint.
 

Ingibjörg Gunnarsdóttir