Intelligent Instruments við Háskóla Íslands
Verkefnið Intelligent Instruments, sem hlaut styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC Consolidator Grant 2021-2026), hefur verið flutt á Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Þetta þverfaglega rannsóknarverkefni var sett á laggirnar árið 2021 við Listaháskóla Íslands og verður skólinn áfram aðili að verkefninu. Í verkefninu er hlutverk gervigreindar í sköpun skoðað og þá sérstaklega í gegnum hljóðfæri í lifandi flutningi. Framlag verkefnisins er á sviði tölvutækni sem og hug- og félagsvísinda en það gengur út á að rannsaka hvernig fólk bregst við greind og atbeina í tækni almennt, þar sem tónlist og hljóðfæri eru notuð sem vettvangur og aðferðafræði rannsóknarinnar.
Sú bylting sem hefur átt sér stað í spunagreind á síðustu misserum hefur gjörbylt rannsóknarlandslagi gervigreindar. Við þessa þróun hefur verkefnið færst meir yfir á svið hug- og félagsvísinda og eru hugvísindin nú orðin sá vettvangur sem hæfir verkefninu best. Því hefur verkefninu verið fundinn staður við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, með aðsetur í Veröld - húsi Vigdísar. Í kringum verkefnið og þverfaglegt samstarf hefur verið stofnuð rannsóknarstofa í tilraunakenndum hugvísindum. Við rannsóknarstofuna starfa nú tveir nýdoktorar, þrír doktorsnemar, tæknimaður og verkefnisstjóri, ásamt aðalrannsakanda. Verkefnið vinnur þverfaglega og er í samstarfi við alþjóðlegt vísinda- og listafólk af ólíkum rannsóknarsviðum. Sjá nánar á www.iil.is.”
Þórhallur Magnússon, aðalrannsakandi verkefnisins, segir að flutningur verkefnisins til Háskóla Íslands bjóði upp á ótal spennandi möguleika varðandi þverfaglegt samstarf og sterkara rannsóknarumhverfi fyrir doktorsnema og nýdoktora. „Það hefur verið mjög gott að starfa við Listaháskólann og tengjast rannsakendum þar en breytt landslag á sviði gervigreindar á síðustu misserum hefur ýtt undir áherslubreytingu í okkar rannsóknum og við teljum að verkefnið eigi nú betur heima í hug- og félagsvísindum þó að aðferðafræði okkar liggi að hluta til á sviði listrannsókna. Samstarfið við Listaháskólann mun því halda áfram.”
Eiríkur Smári, rannsóknarstjóri við Hugvísindasvið HÍ, segir mikinn feng í að fá ERC-verkefni Þórhalls yfir á sviðið. „Undanfarin ár höfum við verið að byggja upp samstarf við Listaháskóla Íslands í rannsóknum og í INTENT eru mörg tækifæri til að styrkja það enn frekar. Verkefnið gefur okkur tækifæri til að takast á við áríðandi spurningar um gervigreind, ekki síst þau tækifæri sem hún býður upp á, og ég sé líka mikla möguleika í að tengja INTENT við þróun stafrænna hugvísinda á Íslandi. Þórhallur nálgast þau á mjög skapandi hátt.“