IRIS varpar nýju ljósi á rannsóknir HÍ og áhrif þeirra
Nýtt upplýsingakerfi um rannsóknastarf íslenskra háskóla og stofnana hefur verið opnað en með því skapast fjölmargir nýir möguleikar til þess að varpa ljósi á þær fjölbreyttu rannsóknir sem unnar eru innan Háskóla Íslands og samfélagsleg áhrif þeirra.
Kerfið nefnist IRIS (Icelandic Research Information System) en það heldur utan um rannsóknarvirkni og samfélagsleg áhrif rannsóknarþekkingar sem verður til á Íslandi. Þar verður líka að finna yfirlit yfir rannsóknavirkni rannsakenda, stofnana og fræðigreina og alþjóðlegt samstarf vísinda- og fræðafólks á Íslandi. Hér má t.d. sjá yfirlit yfir rannsóknavirkni Háskóla Íslands.
IRIS býður upp á yfirlit yfir rannsóknabirtingar og kynningar á rannsóknum, rannsóknaverkefni, aðgengilega rannsóknainnviði og gagnasett úr rannsóknum á vegum stofnana sem opin eru öllum á ytri vef IRIS. Þannig má sjá feril rannsóknar allt frá því að hún hefst þar til áhrifa gætir af henni, hvort sem um er að ræða birtingar í ritrýndum fræðitímaritum eða annars konar samfélagsleg áhrif.
IRIS gefur aðildarstofnunum jafnframt greinargott yfirlit yfir umsóknir og úthlutanir rannsóknastyrkja og mun því veita mikilvæga yfirsýn yfir heildarrannsóknavirkni stofnana á einum stað.
Opnun IRIS er eitt skref í innleiðingarferli kerfisins en á næstu mánuðum verður það og möguleikar þess kynnt skipulega fyrir starfsfólki HÍ en kerfið hefur þegar verið nýtt við árlegt mat akademísks starfsfólks. Samhliða kynningu og kennslu á kerfið verða fleiri tegundir gagna um rannsóknavirkni HÍ skráðar í IRIS en upplýsingakerfið mun taka breytingum eftir því sem verkefninu vindur fram.
Ljóst er að kerfið býður upp á mikla möguleika fyrir Háskóla Íslands til að efla sýnileika þeirra rannsókna sem unnar eru innan skólans.