Jafnréttisskóli GRÓ útskrifar 23 nemendur frá 14 löndum
Tuttugu og þrír nemendur Jafnréttisskólans (GRÓ GEST) útskrifuðust frá Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag en útskriftin er sú sextánda frá því skólinn tók til starfa árið 2009 og eru útskrifaðir nemendur nú orðnir 241 talsins frá 38 löndum. Nemendurnir komu að þessu sinni frá fjórtán löndum: Úganda, Suður-Afríku, Gana, Keníu, Palestínu, Indlandi, Malaví, Bosníu Hersigóvínu, Srí Lanka, Nepal, Pakistan og í fyrsta skiptið frá Madagaskar, Líberíu og Rúanda. Þau eru sérfræðingar á ólíkum fræðasviðum en eiga það allir sameiginlegt að vinna að framgangi jafnréttis í heimalöndum sínum, hvort sem lögfræðingar, embættismenn, verkefnisstjórar, aðgerðarsinnar, kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, fræði/vísindamenn, rithöfundar eða blaðamenn. Í ár eru fimm nemendur Jafnréttisskólans skiptinemar á vegum Erasmus+, en þau eru ýmist í meistara- eða doktorsnámi við Sarajevo-háskóla, Ganaháskóla í Accra, Makerere-háskóla í Kampala og Western Cape-háskóla í Höfðaborg í S-Afríku.
Verðlaunuð fyrir lokaverkefni
Árgangurinn sem útskrifaðist á föstudag kom hingað til lands í byrjun janúar og nemendurnir hafa lokið sex þverfaglegum námskeiðum. Tvenn verðlaun kennd við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Jafnréttisskólans, voru veitt við athöfnina, líkt og áður við útskrift nemenda, annars vegar í flokki rannsóknarverkefna og hins vegar í flokki hagnýtra verkefna. Í fyrri flokknum hlaut Mihitha Basnayake verðlaun en hann er frá Srí Lanka og starfar þar sem læknir á kvennadeild spítala og beitir sér fyrir bættu heilbrigði stúlkna og kvenna. Hann hyggst gera konum sem búa við sára fátækt auðveldara að nálgast ódýr og umhverfisvæn dömubindi með því að setja upp verksmiðjur þar sem notaður verður ónýttur hluti bananaplöntunnar til framleiðslunnar. Verkefnið er einnig þáttur í að binda enda á blæðingaskömm sem er brýnt mannréttindamál. Í síðari flokknum hlaut Ramatu Issah, stjórnmálafræðingur frá Gana og meistaranemi í Afríkufræðum við University of Ghana í Accra sem hlaut Erasmus+ styrk vegna dvalarinnar á Íslandi, verðlaun fyrir verkefni sem snýr að því að uppræta barnahjónabönd á ákveðnum svæðum í landinu. Rannsóknir sýna að barnahjónabönd hafa varanleg og skaðleg áhrif á stöðu og heilsu ungra stúlkna.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, og Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, fluttu ávörp við útskriftina. Ólöf Garðarsdóttir, sviðsforseti Hugvísindasviðs, Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður GRÓ, Guðrún Eysteinsdótir og Védís Ólafsdóttir verkefnisstjóri við skólann afhentu síðan prófskírteini frá Háskóla Íslands og skírteini sem staðfestir þátttöku í þjálfunarnámi GRÓ. Elizabeth Achola Mang'eni frá Kenía flutti lokaávarp fyrir hönd nemenda, Enas Dajani frá Palestínu las ljóð eftir Mahmoud Darwish og Hameeda Syed frá Indlandi flutti frumsamið ljóð um nemendahópinn sem bar yfirskriftina „Þetta reddast“! Ekki veitir af hvatningu til handa fólki sem starfar við jafnréttismál víða um heim á tímum alvarlegs bakslags í málflokknum.
Tvenn verðlaun kennd við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Jafnréttisskólans, voru veitt við athöfnina, í flokkum rannsóknarverkefna og hagnýtra verkefna. Þau komu í hlut Mihitha Basnayake frá Srí Lanka og Ramatu Issah frá Gana sem eru hér ásamt Nínu Björk Jónsdóttur, Irmu Erlingsdóttur og Jóni Atla Benediktssyni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Mikilvægi Jafnréttisskólans sjaldan verið meira
Jón Atli Benediktsson sagði m.a. í erindi sínu að mikilvægi verkefna eins og Jafnréttisskólans hefði sjaldan verið meira en í dag á tímum uppgangs róttækrar þjóðernishyggju og kynþáttahyggju og aukinna stríðsátaka. Jafnréttisskólinn væri snar þáttur í viðleitni Háskóla Íslands til aukins alþjóðlegs samstarfs og þverþjóðlegrar þekkingarsköpunar. Martin Eyjólfsson lagði á það áherslu að jafnréttismál eru í dag skilgreind sem grundvallarmannréttindi og forsenda framfara og þróunar í utanríkistefnu Íslands. Hann sagði jafnframt að sá árangur sem Ísland hefði náð í málaflokknum bæri að þakka konum sem börðust fyrir réttindum sínum svo áratugum skipti. Jafnrétti kæmi ekki af sjálfu sér. Irma Erlingsdóttir lýsti því í erindi sínu með hvaða hætti starfsemi skólans færi fram fyrir tilstilli samstarfs fjölda aðila, hvort sem um væri að ræða samstarfsstofnanir og -samtök í heimalöndum nemenda sem tilnefna umsækjendur og styðja síðan þá sem útskrifast við innleiðingu verkefna sinna þegar heim kemur eða sjálfa samsetningu námsins sem hverfist um að gera nemendur betur í stakk búna til að takast á við erfiðar aðstæður í heimalöndum sínum en þar koma að fjöldi kennara og leiðbeinenda frá ólíkum heimshornum og fræðigreinum auk starfsfólks skólans sem sinnir starfi sínu af mikilli alúð og metnaði.
Alþjóðlegum jafnréttisskóla var komið á fót við Hugvísindasvið Háskóla Íslands sem tilraunaverkefni árið 2009. Árið 2013 fékk hann aðild að neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Frá því í janúar 2020 er hann hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnréttissaskólinn býður upp á diplómanám í alþjóðlegum jafnréttisfræðum og veitir auk þess styrki til doktorsnáms. GRÓ skólarnir fjórir, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn eru allir mikilvægt framlag til þróunarsamvinnu Íslands.