Jólakveðja rektors Háskóla Íslands
Hér á eftir fylgir jólakveðja Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, til starfsfólks, stúdenta og allra velunnara skólans:
„Þetta ár er brátt á enda og hefur það markast af áskorunum bæði hér heima og erlendis. Við höfum jafnframt enn og aftur séð hversu brýnt það er fyrir okkur að eiga vísindafólk í fremstu röð sem styður stjórnvöld við að taka ákvarðanir sem varða ekki aðeins hagræna þætti heldur líf og öryggi okkar. Nærtækast er hér að líta til þeirra viðburða sem nú eiga sér stað á Reykjanesi.
Rannsóknir og nýsköpun eru stoðirnar í háskólastarfi um allan heim. Kennsla og miðlun til almennings byggir á þeirri mikilvægu þekkingu sem verður til í fjölbreyttu vísindastarfi. Við þurfum að standa saman vörð um rannsóknir og menntun því þekkingin er sá gjaldmiðill sem aldrei missir verðgildi sitt.
Mörg af nemendum okkar halda próflúin inn í jólahátíðina því hefðbundnum haustmisserisprófum er lokið. Mikil þróun hefur átt sér stað við námsmat hér í HÍ og er nú svo komið að yfir áttatíu prósent allra prófa eru þreytt stafrænt. Þetta er markviss hluti af því að umbreyta þjónustunni innan skólans og bæta hana í þágu nemenda og kennara. Ég vil nota tækifærið og þakka okkar kæru nemendum og kennurum fyrir þeirra mikilvæga framlag til að tryggja að vel tókst til.
Jólakveðja rektors í myndbandsformi.
Niðurstöður nýrrar PISA-könnunar eru sláandi. Háskóli Íslands vinnur að því alla daga að takast á við áskoranir og ný þekking sem verður til innan veggja skólans er undirstaða þess að góð lífkjör haldist hér á sama tíma og við höfum augun á sjálfbærrri þróun, sem er eitt brýnasta markmið alls mannkyns. Það er hlutverk Háskólans sem æðstu stofnunar landsins á sviði menntarannsókna að rýna þessar niðurstöður og leita leiða til að bæta stöðu okkar á þessu sviði með stjórnvöldum og hagaðilum.
Háskóli Íslands mun áfram sækja markvisst fram í anda heildarstefnu sinnar í hugvísindum, félagsvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og náttúruvísindum á komandi ári. Hluti af því er sókn Háskólans í félagsráðgjöf og heilbrigðisvisinda- og STEM-greinum, þ.e. vísinda- og tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði, en allt þetta er afar brýnt til að tryggja framfarir og bregðast við áskorunum víða í íslensku samfélagi. Með nýlegu samkomulagi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um yfir hálfs milljarðs króna stuðning er markmiðið er að fjölga lækna- og hjúkrunarfræðinemum og félagsráðgjafarnemum við skólann. Á sama tíma verða innleiddar aðgerðir til fjölgunar nemenda á Verkfræði- og náttúruvísindasviði skólans og leiðir mótaðar til að minnka brottfall á sviðinu.
Á þessum tíma árs eru ljósin skærust. Sá siður að bera þau út á aðventunni til að varpa frá skuggunum veitir okkur fyrirheit um bjartari tíð og betri daga. Þann 22. desember eru þau tímamót hér á norðurhveli jarðar að myrkrið lætur undan ljósinu. Næsti dagur á eftir verður strax örlítið lengri en sá fyrri. Við skulum því horfa fram á veginn til birtunnar sem fram undan er.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsæls komandi árs.“