Kristín Briem og Sólveig Ása á Háskólaþing
Niðurstöður í rafrænu kjöri fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs á Háskólaþing liggur fyrir. Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun og Sólveig Ása Árnadóttir, dósent við sömu námsbraut, voru kjörnar aðalfulltrúar. Lárus Steinþór Guðmundsson, dósent við Lyfjafræðideild, Sigríður Rósa Víðisdóttir, lektor við Tannlæknadeild, Sigurður J. Grétarsson, prófessor við Sálfræðideild og Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild voru kjörnir varafulltrúar.
Allir akademískir starfsmenn Heilbrigðisvísindasviðs voru í kjöri. Óskað var eftir tilnefningum og ofangreind gáfu kost á sér. Rafræn kosning fór fram í kjölfarið og stóð frá 4. – 8. júní.
Samkvæmt reglum Háskóla Íslands nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings skal fjöldi fastra fulltrúa hvers fræðasviðs, að meðtöldum deildarforsetum en frátöldum forseta fræðasviðs, vera sjö. Einn fulltrúi skal því kjörinn úr röðum akademískra starfsmanna.
Einn viðbótarfulltrúi skal jafnframt kjörinn skv. þeirri reglu að einn fulltrúi komi til viðbótar fyrir hverja 500 nemendur á þeim fræðasviðum þar sem nemendur eru fleiri en 2.000. Fjöldi nemenda við Heilbrigðisvísindasvið var 2.813 í febrúar 2020.
Fyrir hvern kjörinn fulltrúa fræðasviðsins skulu kjörnir tveir varamenn.